01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

139. mál, útmælingar lóða

Bjarni Jónsson:

Jeg fagnaði mjög þegar þetta frv. barst deildinni. Jeg sá, að mjer mundi nú fært að eignast ýmsar lóðir hjer í Reykjavík, sem jeg hefi lengi haft augastað á. En nú sje jeg, að Reykjavík er undanþegin. (E. A.: Reykjavík hefir verið undanþegin þegar frá 1891). Jú, en það er eitt meðal við því, sem jeg hefi lært af Einari prófessor Arnórssyni, að ný lög breyta því, sem staðið hefir í eldri lögum.

Það hefir verið kvartað yfir því, að útlendingar yrðu fyrri til að ná hjer hagkvæmum lóðum en landsmenn, og hefir þar sjerstaklega verið tilnefndur Ingólfsfjörður. En þetta frv. mundi ekki reisa skorður við því nje stuðla að því, að Íslendingar næðu lóðum úr höndum útlendinga. En það mundi gera annað; það mundi koma upp fjöldi af lóðaleppum, sem hefðu það fyrir atvinnu að hjálpa útlendingum til að ná löndum hjer. Hjer skapast því ný hætta. Það er að vísu hægt að neita þessu á sama veg sem sumir málfærslumenn hafa fyrir reglu að neita öllu og mótmæla öllu fyrir dómstólum, en hættan minkar ekki hót við það.

Þó er þetta ekki aðalatriði fyrir mjer; það er annað, sem gerir mjer bókstaflega ómögulegt að greiða atkvæði með frv., og það er, að hjer er um bersýnilegt stjórnarskrárbrot að ræða. Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) kvað það ekki vera svo, af því að fult verð ætti fyrir landið að greiða. Þetta er ekki nóg; stjórnarskráin heimilar ekki að taka eignir manna af þeim nauðugum, þótt gjald komi fyrir, nema alþjóðarheill heimti. En alþjóðarheill þarf það ekki að vera, þó að Sigurð formann langi til að ná sjer í lóðarblett hjer eða þar og hrifsi hann undir sig eftir þessum lögum. Um þetta efni verða eigi samin almenn lög, heldur mundi þurfa sjerstök lög í hvert einstakt skifti, því að það er svo margt, sem til greina getur komið, að eigi er unt að láta almenn lög ná yfir það alt. Og jeg held því fram, að almenn lög megi ekki heimila Pjetri og Páli að taka undir sig land, hvar sem þeir kunna að girnast. Þykir mjer ólíklegt, að háttv. þingmenn vilji samþykkja slíkt brot á stjórnarskrá vorri.

Það gerir ekki þessi lög hóti betri, þótt hið sama sje gert með lögunum frá 13. mars 1891. Meira að segja, úr því að vakin hefir verið athygli á því, hvernig þau eru úr garði gerð, getur ekki hjá því farið, að þau verði brátt feld úr gildi eða samin upp. Mjer finst því sjálfsagt að samþykkja hina rökstuddu dagskrá háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), og tel jeg hann eiga þakkir skildar fyrir að hafa gert sitt til að firra þingið þeim vitum að samþykkja frv. þetta.