01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

139. mál, útmælingar lóða

Frsm. (Einar Arnórsson):

Það hefir þegar verið vegið að frv. þessu úr 4 áttum, og virðist ekki annað hlýða en að nokkrum vörnum sje haldið uppi.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) játaði, að í frv. fælist rjettarbót, borið saman við núgildandi lög, lögin frá 13. mars 1891, því að í þeim væru engar skorður reistar við því, að þeir gætu fengið lóðir útmældar til verslunar, sem þess æsktu, ef þeir ætluðu að hefja verslun á staðnum, og hafi lögin frá 13. mars 1891 verið brot á stjórnarskránni, sem jeg segi alls eigi að þau hafi verið, þá á að nokkru að bæta úr því hjer.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) kvað það mundu hafa verið óánægjan með kosti

þá, sem sumir útgerðarmenn hafa sett þeim, sem á þeirra náðir hafa orðið að leita, sem velt hefði hlassi þessu úr stað. Jeg skal ekkert um það segja, en með sama rjetti mætti raunar segja, að einhverjir »stórgrósserar« stæðu á bak við þá, sem móti mæla, og ýttu þeim úr stað; þó er fjarri, að jeg segi að svo sje. Frv. eða lögin um notkun hafna, sem háttv. þm. N.-Þ.

(B. Sv.) nefndi í sambandi við þetta frv., er ófullnægjandi í þessu efni, og ekki geta menn eftir því fengið til starfrækslu lóðir á landi. Tilgangur þess var að sporna á móti því, að einstakir menn gætu sett mönnum afarkosti og neytt þá til að selja sjer afurðir sínar lægra verði, eða með öðrum óhagstæðari kjörum, en aðrir byðu fyrir þær, og til að kaupa af sjer nauðsynjar hærra verði en annarsstaðar væri hægt að fá þær fyrir.

Háttv. þm. (B. Sv.) sagði, að menn vissu ekki nema lögin nr. 3, 13. mars 1891, hefðu verið misbrúkuð; hafi það kunnað að koma fyrir, þá eru hjer nokkrar skorður reistar við því, að svo verði eftirleiðis. Háttv. þm. (B. Sv.) sagði enn fremur, að sumir kynnu að nota lagaheimild þá, sem hjer á að veita, til að ná lóðum til þess að »spekúlera« með þær. Ef brtt. sú, sem hjer liggur fyrir, verður samþykt, þá mun fyrir það girt, þar sem þurfa meðmæli bæjarstjórnar eða hreppsnefndar til þess, að útmælingin fáist. Bæði háttv. þm. Dala. (B. J.) og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gerðu allmikið úr því, að með þessu væri verið að ljetta undir með útlendingum að ná sjer í lóðir hjer á landi. Jeg fæ ekki sjeð, að svo geti orðið, en hitt sje jeg, að ef þeir hafa þegar sölsað undir sig mikið land, þá verður eftir þessu frv. hægra en áður að taka af þeim það, sem þeir mega missa. Það hefir mikið verið um það talað, að frv. þetta væri brot á stjórnarskránni. Þó fór hæstv. forsætisráðherra vægilegast í þetta, eins og vænta mátti; hann vildi alls ekki fullyrða það, en var hræddur um, að það gæti verið einhversstaðar á takmörkunum.

Þá voru háttv. þm. Dala. (B. J.) og N.-Þ. (B. Sv.) að útlista það, hvað þyrfti til þess, að heimilt væri samkvæmt stjórnarskránni að taka eignir manna eignarnámi. Nefndu þeir þar til almenningsheill, að fult endurgjald kæmi fyrir það, sem tekið er, og auk þess taldi háttv. þm. Dala. (B. J.), að sjerstök lög þyrftu að vera sett í hvert einstakt sinn. Svo að jeg snúi mjer fyrst að því, þá hefir þeirri reglu ekki verið fylgt í löggjöf vorri, t. d. ekki í fossalögunum. Um endurgjaldið er enginn ágreiningur, því að hjer er gert ráð fyrir, að það sje greitt. Þá er þriðja atriðið, um almenningsheillina. Það er misskilningur, að það heyri undir dómstólana að meta, hvað sje almenningsheill. Það heyrir undir löggjafarvaldið að ákveða það, og dómstólarnir verða að fara eftir lögunum, eins og þau liggja fyrir. Þess er ekki heldur að vænta, að t. d. 3 menn í yfirdómi sjeu færari um að dæma, hvað sje almenningsheill, en samkunda 40 bestu manna, kjörinna víðs vegar um land, og þeir kunnugir í öllum landsfjórðungum. Það er að vísu svo, að oft getur verið mikið vafamál, hvað sje almenningsheill og hvað ekki, því að ekki verður það reiknað út á sama hátt og alment reikningsdæmi. Þar verður að fara eftir mati á öllum atvikum, sem jeg játa að oft getur verið vafasamt. Því sneri allsherjarnefnd sjer til sjávarútvegsnefndar um það, hvort hjer mundi vera um almenningsheill að ræða, og niðurstaðan varð sú, að rjett þótti að fylgja fram frv. þessu ásamt brtt. þeirri, er því fylgir.

Hitt er misskilningur, að það geti ekki verið til almenningsheilla, þótt einstakur maður reki atvinnu eða iðnaðarfyrirtæki; það gæti t. d. vel komið fyrir, að einn maður tæki að sjer að koma upp rafmagnsstöð hjer í Reykjavík, sem allur bærinn hefði gagn af, eða að einstakur maður hefði komið upp vatnsveitunni hjer. Hvort um almenningsheill sje að ræða í frv. þessu, um það læt jeg hvern háttv. þm. dæma fyrir sig. En jeg lít svo á, að svo muni vera, þar sem meiri hluti sjávarútvegsnefndar hjer og í háttv. Ed. er þeirrar skoðunar, og þar eru þó lögfróðir menn og kunnugir sjávarútvegi, svo sem sýslumaður Vestmannaeyja, bæjarfógetar Ísafjarðar og Seyðisfjarðar í Ed. og þm. Ak. (M. K.). Viðvíkjandi lögum nr. 3, 13. mars 1891, þá mun næsta hæpið að halda því fram, að framið hafi verið stjórnarskrárbrot, er þau voru samþykt og staðfest. Mjer þykir ólíklegt, að þeir Magnús Stephensen og Nellemann hefðu ráðið til, að þau næðu staðfestingu, ef um skýlaust stjórnarskrárbrot hefði verið að ræða. Það er um Nellemann að segja, að á meðan hann var ráðherra lagði hann þrásinnis móti því, að lög væru staðfest, af því að þau gengju ofnærri stjórnarskránni, og mundi hann ekki síður hafa gert það með lögin frá 13. mars 1891 en önnur lög, ef honum hefði fundist ástæðu til þess. Og undarlegt þykir mjer það, ef frv. þetta gengi mjög nærri hagsmunum kaupstaða og kauptúna, að bæjarfógetarnir á Ísafirði og Seyðisfirði og þingmaður og sýslumaður Vestmannaeyinga, sem allir sitja í háttv. Ed., skyldu ekki hafa mælt á móti því.

En svo að jeg víki aftur að brtt. á þgskj. 723, þá verður hún ekki skilin öðruvísi en svo, að hreppsnefndir og bæjarstjórnir eigi að meta nauðsyn útmælingar í það og það sinn og mæla með henni og móti, og sömuleiðis koma með tillögur um það, hvort lóðina beri að afhenda til leigu eða til sölu, eftir því sem henni finst rjettast og best við eiga í hvert skifti.

Að öðru leyti læt jeg hvern einstakan háttv. þm. dæma um það, hvort hjer sje um almenningsheill að ræða eða ekki. Dæmi þingið, að svo sje, þá er það hæstirjettur í því máli, en ekki dómstólarnir.