01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

139. mál, útmælingar lóða

Bjarni Jónsson:

Mikið kapp leggur háttv. þm. (E. A.) á að fegra þennan ágæta gimstein úr stóra dallinum.

Þegar háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gat þess, að óánægja með kosti þá, sem útgerðarmenn hefðu sætt í Sandgerði, mundi hafa ýtt frv. þessu af stað, þá svaraði háttv. þm. (E. A.) með því að segja, að eins vel mætti halda því fram, að einhverjir stórgrósserar hefðu ýtt af stað þeim fjórum þingdm., sem hafa andmælt frv. En sá er munurinn, að það er sannanlegt, að Sandgerði hefir valdið því, að þetta frv. er komið fram; en hitt mun erfitt að sanna, að grósserar eða aðrir hafi sent okkur fjóra af stað eða standi á bak við okkur. Þessi varnaraðferð háttv. þm. (E. A.) sýnir að eins, hvílíkt ofurkapp hann leggur á málið. Það má vera, að lögin um notkun hafna sjeu ekki fullnægjandi til að tryggja mönnum pláss í fiskiverum. En úr því mætti bæta með miklu tryggari og hagfeldari lagaákvæðum en þeim, sem þetta frv. geymir.

Það er alveg rjett, sem háttv. flutningsm. og aðrir hafa sagt, að þessi nýja brtt. bætir töluvert úr skák, því að eftir henni getur ekki hver og einn alveg út í loftið heimtað annara manna eign, enda er þar líka til að dreifa sveitarstjórnunum. En jeg býst við, að það þætti lítil trygging fyrir löggjafarvaldið að leggja það sveitarstjórnunum í hendur að skera úr, hvort gera á stjórnarskrárbreytingu eða ekki.

Hv. frsm. (E. A.) sagði, að þessi lög væru sett til að sporna við því, að útlendingar gætu náð undir sig verðmiklum eignum og haldið þeim. Þetta hlýtur sá hv. þm. (E. A.) að hafa sagt að gamni sínu, því að hann er altof kunnugur því, sem daglega fer hjer fram af leppmensku, til að geta staðið upp hjer í 3. sinn og borið þetta sem ástæðu, ef hann ætlast til, að því verði trúað. Hann getur náttúrlega sagt það sem fyndni, en fyndni má ekki jaska, því að þá hætta menn að hlæja að henni.

Þá er stjórnarskrárgreinin, sem hljóðar svo:

»Eignarrjetturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagaboð, og komi fult verð fyrir.«

Þetta stendur nú í stjórnarskránni, en ekki ýmislegt af því, sem háttv. frsm. (E. A.) sagði. Það mun vera það rjetta, að sjerstakt lagaboð þyrfti í hvert einstakt skifti, því að það mun trauðlega vera heimilt að gefa út almenn heimildarlög um eignarnám, nema um vafalausa almenningsþörf sje að ræða. Það er mikill mismunur á þessu frv. og almennum heimildarlögum til að taka eignarnámi fossa, þegar stjórnin heimtar það, því að það er almenningsþörfin, sem krefst þess. En að það sje almenningsþörf, sem krefjist þess, að einn einstakur maður geti tekið af öðrum manni lóðarblett í sjávarútvegsþorpi, það nær engri átt, nema dómstólarnir dæmi í hverju einstöku tilfelli, að svo sje. (E. A.: Það er það sama sem þm. N.-Þ. (B. Sv.) var að segja). Jeg skildi hann ekki svo, heldur að löggjafinn ætti að dæma þörfina. Það á hann að gera, því að annars er verið að ræna menn. Um það, að háttv. frsm. (E. A.) vildi lemja mig með nöfnum lifandi og dáinna manna, get jeg sagt:

Eitthvað dustast ofan á mig,

ekki’ er mylsna skaðsamlig.

Það hallar ekki rjettu máli, þótt einhver hafi sagt eitthvað annað, sem engin trygging er fyrir að sje rjett. Og ekki get jeg farið að »jurare in verba magistri«, jafnvel þótt jeg eigi hjer við þektan lögfræðing. Jeg hefi aldrei heyrt neinn af mínum lærisveinum halda því fram, að hvert orð, sem jeg segði, væri rjett, og sjálfur ætla jeg að fylgja þeirri reglu að fylgja því, sem jeg sjálfur álít rjett. Það er rangt að draga nokkra ályktun um afstöðu þeirra manna til þessa máls af afstöðu þeirra í öðru máli, því að það gat verið ástæða fyrir þá að telja það alþjóðarþörf, þótt ekki sje að ræða um alþjóðarþörf í þessu máli. (E. A.: Jeg talaði um stjórnarskrárbrot). Háttv. frsm. (E. A.) byrjaði með að segja, að ef þetta væri stjórnarskrárbrot, þá væru lögin frá 1891 líka stjórnarskrárbrot. Jeg hefi ekki nefnt þessi lög frá 1891 fyr en hann (E. A.) tók þau inn í röksemdafærslu sína. Háttv. frsm. (E. A.) talaði um, að bæjarfógetarnir í Ed. yrðu ekki með þessu frv., ef þeir álitu það hættulegt fyrir bæina, en jeg fæ ekki sjeð, að þetta standi í neinu sambandi við kjarna málsins. Hagur bæjarins gæti staðið þannig, að þeir vildu taka land handa bænum, að t. d. bæjarfógetinn á Ísafirði sæi sjer hag í því að vaða inn í kjördæmi sessunauts síns.

Annars skal jeg ekki fjölyrða meir um þetta mál; það er ekki þess vert, því að slíkt mál sem þetta á að verða sjálfdautt undir eins og það sjest í þingdeild.