11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Framsm. (Bjarni Jónsson):

Það mun ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál að svo komnu, þar sem ekki eru fram komnar nema tvær brtt. Það er því best að segja sem fæst, en sitja fyrir svörum, ef með þarf.

Önnur brtt. er frá mjer, um uppbót á styrk til Breiðafjarðarbátsins. Það hefir verið sýnt og sannað með reikningi fjelagsins, sem gerði bátinn út, að 7,500 kr. vantaði á, að báturinn bæri sig. Jeg fer nú fram á, að sú upphæð, sem þeir sóttu um, 6,000 kr., verði veitt að fullu. Samgöngumálanefnd lagði til, að klipt væri af upphæðinni, og þóttist fjárveitinganefndin þá ekki geta lagt til hærri styrk en samgöngumálanefndin. Jeg sje ekki, að ástæða sje til að neita að greiða hallann, þar sem bátsins hefir verið full þörf. Allra síst ætti að neita um það, er litið er til þessa, að nú á þinginu er í ráði að veita ríflegan styrk til vjelbátaferða í kringum land alt. Þörfin fyrir flutningabát er ekki minni á Breiðafirði en annarsstaðar, nema síður sje. Það væri ósanngjarnt að láta fjelagið, sem gerir út bátinn þar, gjalda þess, að það var á undan öðrum. Einmitt fyrir það hefir fengist betri og hentugri bátur til ferðanna en kostur mun á annarsstaðar. Jeg vona, að háttv. þm. líti á þörf fjelagsins fyrir uppbótina, og hina miklu þörf hjeraðanna fyrir bátinn.

Hin brtt. er frá 1. þm. Húnv. (Þór. J.), og er viðvíkjandi kvennaskólanum á Blönduósi. Nefndin leggur til, að veittar verði 500 kr. í stað 1,500 kr., er stóðu í frv. Jeg er ungur og óharðnaður í orustum, og ekki svo harður í horn að taka enn þá, að jeg geti veist á móti fjárveitingum til skólanna; verð jeg því að fá einhverjum samnefndarmanna minna í hendur að berjast við þau tröll. Jeg gef því stjórninni og tillögumanni ávísun á formann nefndarinnar. Annars vona jeg, að tillögur nefndarinnar gangi fram og þurfi ekki frekari umræður, nema ef vera kynni, að einhverjir vilji kljást við formann nefndarinnar um skólana. (H. K.: Á 6,000 kr. uppbótin að ganga tiltölulega til beggja bátanna?) Það mál hefir samgöngumálanefndin þaulrætt, og m. a. fengið upplýsingar hjá háttv. þm. Barð. Hitt má háttv. þm. (H. K ) og vita, að fyrst er að vita, hvort uppbótin fæst.