07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

47. mál, styrkur til búnaðarfélaga

Flm. (Sigurður Sigurðsson); Þessi till. er mjög einföld og óbrotin. Hún fer að eins fram á það, að breytt sje tímatakmarkinu í skilyrðum Alþingis fyrir styrkveitingum til búnaðarfjelaga. Þetta takmark er nú svo, að eftir árið 1919 megi skoðunarmaður eigi taka upp í jarðabótaskýrslu túnasljettun, túnútgræðslu eða sáðreiti, þar sem eigi er áburðarhús og salerni. Nú hefir mörgum sóst seint að koma upp þessum áburðarhúsum, og með því að nú er mjög erfitt að ná í sement og það er afardýrt, þá er hætt við, að enn muni það dragast hjá mörgum. Ef því þetta tímatakmark stendur áfram, þá munu margir framvegis missa af þessum styrk. Af þessari ástæðu leggjum við flutningsmenn það til að færa tímatakmarkið til 1925.

Það hefir dregist að taka þessa till. á dagskrá, að vilja okkar flutningsmanna, vegna þess, að snemma á þinginu mátti búast við því, að búnaðarfjelögin yrðu svift öllum styrk, og var hún þá óþörf. En nú er svo komið, að auðsjeð er, að styrkurinn helst, eins og að undanförnu, og er þá ekki ástæða til að draga till. lengur. En hún er svo óbrotin, að jeg vona, að allir samþykki hana.