19.07.1917
Neðri deild: 14. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

77. mál, kolanám

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg get ekki komist hjá að geta um till., er jeg bar fram á aukaþinginu í vetur, þess innihalds, að þá þegar væri tekið að vinna kol, sökum þess, að jeg þóttist sjá, að þess mundi brátt þörf, sakir aukins kafbátahernaðar og enn ríkara hafnbanns á Englandi. Mönnum þótti þá, sem ver fór, útlitið ekki svo ískyggilegt, að þeir vildu sinna till. Hefði hún verið samþykt þá, væru nú til talsverðar birgðir af kolum.

Jeg bar ekki till. þessar fram fyrir fordildar sakir, heldur af einlægum vilja, og af því, að jeg þóttist sannfærður um, að svo mundi fara, sem farið hefir. Kann jeg þá að hafa varpað ómildum orðum að mönnum, og var það ekki af illvild, heldur af því, að þunglega var tekið í þetta mál, sem jeg taldi nauðsynjamál, og svo hefir reynst. Það var vel tekið í að rannsaka, en ekki framkvæma.

Nú mun varla þörf að orðlengja, því að fyrirsjáanlegt er, að menn muni verða eldiviðarlausir í vetur, bæði til að elda mat og halda á sjer hita. Nú má það heita dagleg fregn, að sökt sje skipum þeim, sem flytja kol og aðrar nauðsynjavörur til landsins fyrir landsstjórn eða einstaka kaupmenn. Þá hygg jeg, að allir vilji fylgja bjargráðanefnd að því að láta vinna kol til eldiviðar mönnum. Kunnugt er, að stjórnin er þegar byrjuð að láta nema kol á Tjörnesi, og mun hún ætla sjer að fjölga þar verkamönnum. En landsstjórnin hefir látið gera meira en þetta. Hún hefir auk þess látið Guðmund Guðmundsson, Bárðarsonar, jarðfræðing í Hrútafirðinum, rannsaka kolalög í Steingrímsfirði. Hefir hann fundið þar álitleg kolalög á nokkrum stöðum. Sum af bestu lögunum eru á landssjóðsjörðum, svo að landssjóður þyrfti hvorki að kaupa námurjettinn, nje taka hann eignarnámi eða á leigu. Hefði að sjálfsögðu átt að leggja kapp á að vinna kol á þessum stað líka. Þaðan er að minsta kosti hægra að flytja kolin en frá Tjörnesi, og er það ekki lítill kostur.

Torvelt mun nú að vísu reynast að útvega verkfæri eða nægilegan mannafla til að vinna þessar námur eða aðrar. En á þeim neyðartímum, sem nú standa yfir, má einkis láta ófreistað, til að ráða fram úr vandræðunum. Það þarf að gera gangskör að því að leita uppi það, sem til er í landinu af stáli og járni og öðru því, sem til verkfæra má nota, og viða saman það, sem unt er að fá.

Hvað fólksskortinum viðvíkur, þá verður ef til vill erfiðara að bæta úr honum. En mjer finnast tímar þeir, sem nú vofa yfir, vera svo alvarlegir, að það gæti nú varla talist goðgá að skylda menn til að vinna, ef ekki tekst að fá vinnukraft á annan hátt. (M. Ó.: Þegnskylduvinnan). Jeg hefi aldrei ætlað mjer að svifta nokkurn mann frelsi sínu, með því að skipa honum að moka mold út um heiðar og móa. Þótt til þess yrði gripið í lífsnauðsyn, eins og nú er, að skylda menn til vinnu, þá á það ekkert skylt við þegnskylduvitleysuna, sem háttv. sessunautur minn (M. Ó.) minnir á.

Til þess, að stjórnin geti aukið framkvæmdir sínar við kolanám, þarf hún að sjálfsögðu á fje að halda, og verður þingið að heimila henni það. Jeg bar tillöguna undir hæstv. landsstjórn, áður en jeg lagði hana fyrir deildina, og var þess óskað, að bætt væri við hana heimild til að verja fje úr landssjóði til undirbúnings og framkvæmda. Varð nefndin að sjálfsögðu við þeirri ósk, og því kemur tillagan fram í þeirri mynd, sem hún er nú.

Í till. er talað um að byggja torfbæi yfir verkamenn. Mjer er kunnugt um, að stjórnin hefir hugsað sjer að láta vinna við kolanám að vetrinum til, að minsta kosti við Tjörnesnámuna, enda mun þess full þörf. Verður þá ekki hjá því komist að byggja skýli yfir verkamennina. Stungið er upp á torfbæjum, því að bæði eru þeir hlýrri en timburhús, og svo mundi bæði dýrt og erfitt að fá timbur til byggingar. Eru torfbæir nefndir að eins til að gefa bendingu um byggingarefni, sem óþarft virðist að ganga fram hjá, þegar svona stendur á.

Jeg tel mig ekki þurfa að fjölyrða meir um þetta mál að sinni. Mönnum er það vafalaust öllum ljóst, hvílík nauðsyn ber til að grípa til einhverra ráða, til að afstýra vandræðunum, sem nú vofa yfir. — Því ber að vísu ekki að gleyma, að það eru fleiri en landsstjórnin, sem hugsa fyrir mönnum og gera ráðstafanir til að bæta úr eldsneytisskortinum. Flestum mun vera kunnugt um fyrirhyggju bæjarstjórnarinnar hjer í Reykjavík, sem lætur nú vinna af kappi að mótekju handa aumingjum þeim, sem nóg fje hafa til að borga móinn fyrirfram. En við hinir aumingjarnir, sem erum ekki svo vel stæðir, verðum að leita athvarfs einhversstaðar annarsstaðar. Mun þá varla um önnur úrræði að gera en að styðja landsstjórnina til að afla kola handa okkur, eins og tillagan fer fram á.