25.07.1917
Efri deild: 14. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

77. mál, kolanám

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg finn ástæðu til að benda á það hjer, eins og í háttv. Nd., að þó að landsstjórnin vilji gera alt sitt til þess, að þingsályktunartillagan komi að sem bestum notum, þá er lítið útlit fyrir nægilegan árangur af þeirri viðleitni, og vafasamt, að kleift verði að bæta að fullu úr kolaskortinum. Menn skyldu því ekki treysta um of á kolin og vanrækja í því trausti að afla sjer annars eldiviðar.

Um áskorun þá, sem felst í þingsályktunartillögunni, er það að segja, að með því að aðalkolanámið er á Tjörnesi, þá er miklum erfiðleikum bundið að geyma þar kolabirgðir. Þar að auki er höfnin vond og stjórnin hefir að eins stórskip til þess að flytja kolin. En hingað til hafa einstakir menn annast kolaflutninginn á eigin skipum, og vonandi verður framhald á því. Jeg vil þess vegna ekki, að landsstjórnin sje skylduð til að hafa eigin skip sín til flutninganna, heldur væri æskilegt, að kolin yrðu flutt á smærri skipum. Viðaukatillöguna mun ekki heldur eiga að skilja þannig, að ekki megi flytja kolin í hverja höfn á landinu sem vill.

Jeg vil þá loks benda á þessi tvö atriði, að kolavinslan mun varla nægja eldiviðarþörf landsmanna, og að stjórnin mun reyna að flytja kolin á skipum, sem hentug eru til slíkra flutninga.