11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Pjetur Jónsson:

Háttv. framsm. (B. J.) hefir skotið því til mín að gera grein fyrir till. fjárveitinganefndar um styrkveitingarnar til skólanna; og má það þó undarlegt virðast, að slíkt skuli dæmast á mig, óskólagenginn manninn. En orsökin mun vera sú, að jeg er frá gamalli tíð kunnugur þessum skólamálum hjer á þingi, að því leyti, sem að fjárveitingavaldinu hefir snúið.

Nefndin gat ekki vel áttað sig á því, á hverju stjórnin hefði bygt fjárveitingatill. sínar til skólanna. Hún virðist hvorki hafa bygt þær á því, hvað skólahaldið hefir orðið dýrara ófriðarins vegna, nje heldur á fylstu þörf skólanna, eins og þeim er lýst í umsóknarskjölunum. Umsóknirnar frá öllum skólunum eru auðsjáanlega bygðar á því, að landssjóður eigi að kosta þá að öllu leyti. Frá Flensborgarskóla lá fyrir fullkominn reikningur, sömuleiðis frá kvennaskólanum í Reykjavík, en frá Blönduósskólanum ekki nema símskeyti um þingtímann í vetur. Þetta mun stjórnin hafa haft að byggja á. En síðan hefir bæst við reikningur Blönduósskólans fyrir 1915—1916 og ágrip fyrir 1916—1917.

Jeg skal strax taka það fram, að fjárveitinganefndin getur ekki gengið inn á hugsunargang umsóknanna. Hún, eða meiri hluti hennar, heldur því fram, að landssjóð beri ekki fremur skylda til að kosta þá að öllu leyti nú, þótt dýrtíð sje, en áður, og hún álítur, að hlutaðeigandi bæir og hjeruð sjeu eins vel stæð eins og landssjóður, og eigi því að sínu leyti að hlaupa undir bagga með þeim. Á þessum grundvelli eru till. nefndarinnar bygðar.

Að þessu mæltu mun jeg minnast á hina einstöku skóla og fylgja þar sömu röð sem hæstv. fjármálaráðherra (B. K.). Hann skýrði frá, sem og er alveg rjett, að kvennaskólanum í Reykjavík veitir ekki af 3000 kr. til að bæta upp tekjuhalla sinn; þar hefir stjórnin þó ekki viljað veita meira en 2500 kr. En fjárveitinganefndin vill ekki hækka styrkinn meira en eldsneytishækkuninni nemur, því að það er sú meginregla, sem hún vill fylgja. Þó er reikningurinn um þetta atriði ekki vel glöggur og ekki glögglega hægt að sjá, hvað kostnaður við rekstur skólans hefir aukist við hækkun eldiviðarverðsins, en það þó upplýst, að þegar reikningurinn var saminn í ágústmánuði 1916, þá var búið að kaupa eldivið til vetrarins 1916— 1917.

Jeg hygg, að ef hærra væri farið en nefndin leggur til, þá mætti skoða það sem svo, að landið tæki upp á sig alla ábyrgð á kostnaðinum við skólahaldið, en það vill nefndin ekki.

Um Blönduósskólann er það að segja, að þar vill stjórnin ekki einungis veita fje til að bæta honum upp eldsneytishækkunina, heldur líka með tilliti til þess, að viðhald hans hefir verið vanrækt að undanförnu. Að öðru leyti hefir hann staðið sig allvel. En þess er þar að gæta, að hjeraðið hefir ekkert lagt fram til skólahaldsins, og hefði þó ekki mátt minna vera, en að það kostaði viðhald skólahússins; svo mikið kapp lagði það á að fá hann. Flestir munu minnast þess, að Húnvetningar fengu einmitt skóla þennan fyrir þá sök, hve sómasamlegan áhuga þeir sýndu við að koma upp húsi yfir hann. Það hefði því mátt vænta þess, að þeir teldu sjer ekki annað vel sæma en að halda því við með sama skörungsskap sem þeir reistu það.

Húsaleiga fyrir skólann er reiknuð 2400 kr. á ári, og tillag sýslunnar hið sama; svo að nú á svo að heita, að hjeraðið leggi fram til skólans 2400 kr. árlega. En það er einungis leiga af skólahúsinu, en svo mun hafa verið búist við, að skólinn hefði leigulausa íbúð í húsi sínu, auk 1000 kr. framlags úr hjeraði. Því að landssjóður veitti nokkurt fje til húsbyggingarinnar upphaflega. Í reikningnum er og tilfærð renta og afborgun af skuld fyrir skólahússbygginguna, sem skólinn er látinn standa straum af; að því leyti er þá húsaleigan líka tvítalin til útgjalda skólanum. Ef þræta ætti að verða um tillag til skóla þessa, þá mundi vera ráðlegra fyrir háttv. þm. að kynna sjer reikninga hans, en það hefir stjórnin auðsjáanlega ekki gert.

Í fjárlögunum er styrkveitingin til skólans bundin því skilyrði, að hann fái 1000 kr. annarsstaðar að. Það sjest ekki, að þessu skilyrði hafi verið fullnægt, eins og áður er sýnt, nema ef svo á að heita, að húsaleigan eigi að teljast til þess; en jeg hefi þegar skýrt frá, hvernig stendur á með hana. Í stuttu máli má segja, að landssjóðsstyrkurinn til skóla þessa hafi verið sómasamlegur. Nefndin hefir viljað miða styrkhækkunina við eldiviðarverðhækkunina; en satt er það, að það hefir ekki verið auðvelt, því að reikningur sá, sem fyrir nefndinni lá, var í raun og veru ekki annað en eins konar áætlun frá gjaldkera skólans, enda skoðaði nefndin hann ekki öðruvísi, og má vel vera, eins og háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) fullyrðir, að hún hafi að einhverju leyti verið röng, og er enn tími til að athuga það mál betur.

Þá kem jeg að Flensborgarskóla. Mjer kemur það ekki á óvart, þótt þar hafi orðið 1000 kr. tekjuþurð á síðasta skólareikningi, eins og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) skýrði frá, í viðbót við hina eldri skuld skólans. Nefndin gekk út frá því sama. Umsóknin frá skóla þessum, er, eins og hinar, bygð á því, að landssjóður standi straum af skólanum til fulls, og meðal annars farið fram á, að borguð sje 2700 kr. skuld, sem skólinn var kominn í fyrir stríðið. Það er þar jafnframt farið fram á, að kennararnir fái 800 kr. í dýrtíðaruppbót; en þess ber að gæta, að þeir hafa þegar fengið yfir 2200 kr. af dýrtíðaruppbótinni, sem veitt var í vetur sem leið. Hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) virðist ganga út frá hinu sama sem umsóknin, að landssjóður eigi að halda skólanum að öllu leyti uppi. En jeg held hinu fram, að það hafi aldrei verið viðurkent. Mjer er allvel kunnug saga skóla þessa frá upphafi, og jeg veit það, að styrkurinn til hans var um alllangt skeið einkum miðaður við það, að hann undirbjó kennaraefni; en eins og kunnugt er þá hefir Kennaraskólinn nú tekið við því, og var þá talið sjálfsagt, að fje sparaðist mjög til Flensborgarskólans. Mjer þótti undarlegt að heyra það, að skólinn ætti nú því nær engar eignir. Upphaflega átti hann þó töluverðar eignir, sem munu af gefandanum hafa verið ánafnaðar Garðahreppi (Hafnarfirði). Nú lítur út fyrir, að búið sje að eta þessa fúlgu upp. Það er þessi áhugi, sem nú á að verðlauna, sá áhugi, sem kemur fram í því að eta upp gjöf dáins sómamanns, sem hann stofnaði til af rækt við bygðarlag sitt og í því trausti, að hún gæti orðið því til þrifa. Jeg játa það, að skólinn muni vera góður skóli; en hann verður að vera háður sömu kjörum sem aðrir unglingaskólar, hvort sem stofnaðir eru af einstökum mönnum eða heilum hjeruðum, að landssjóður styrki hann að nokkru leyti, en forráðamenn hans sjái honum fyrir því fje, sem þá vantar til.

Annars er afstaða ýmsra skóla við landssjóð ófær, eins og hún nú er. — Stjórninni má ekki leggjast undir höfuð að taka það mál til athugunar og fá komið á fullu skipulagi um það, hverjir skólar skuli vera landsskólar, hverjir hjeraða- eða bæjaskólar með styrk af landsfje o. s. frv. Sá tvískinnungur, sem nú er, má ekki lengur eiga sjer stað.

Jeg þarf ekki að svara háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) miklu, því að jeg get eigi sagt afstöðu nefndarinnar til brtt. hans. Hún byggist á upplýsingum, sem nefndin hafði ekki fyrir sjer. En mjer finst það einkennilegt, ef það er svo, að skólastjórnin meti það lítils, að kennurunum voru bætt upp laun þeirra.

Jeg skal svo enda með því, að mjer finst, að þegar eitthvert hjerað hefir barist fyrir því að koma upp skóla hjá sjer, þá eigi það að halda honum við á sinn kostnað og sína ábyrgð, með einhverjum ákveðnum landssjóðsstyrk, samkvæmt því sem aðrir samskonar skólar hafa, en smokra honum eigi af sjer smátt og smátt og eins og að óvöru.