21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg get verið mjög stuttorður um þessa tillögu. Hún er í samræmi við tillögu, sem samþykt var á þinginu 1915, þess efnis að skora á stjórnina að láta rannsaka leiðir og lendingar í kringum landið. Á þinginu í vetur var samþykt nokkurskonar framhald af þeirri tillögu, og má segja, að till. á þgskj. 124 sje framhald af því, sem samþykt var þá. Mál það, sem hjer ræðir um, er ekkert nýmæli. Það hefir margsinnis verið flutt áður, ýmist í tillöguformi eða í frumvarpsformi, og altaf verið vel tekið. Það er álit allra manna, sem nálægt búa þessum stað og kunnugir eru málavöxtum, að brýn nauðsyn beri til að flýta sem mest framkvæmd þessa máls og að ábyggileg áætlun verði samin svo fljótt, sem auðið er. Mjer er líka kunnugt um það, að hv. samþingism. minn og fyrverandi ráðherra (E. A.) hafði ráðið mann til að rannsaka þetta mál. Og nú er mjer tjáð, að landsstjórnin sje búin að ráða mann til að skoða leiðir og lendingar við strendur landsins. Tel jeg þá víst, að vikið verði að framkvæmdum þess innan skamms. Tilgangurinn með tillögunni er því að eins sá að minna hæstv. landsstjórn á þennan stað og benda til þess, að sjálfsagt þyki að rannsaka hann fyrst.

Jeg ætla ekki að fara út í það að lýsa nauðsyn þessarar hafnargerðar. Það hefir svo oft verið gert áður, bæði í ræðu og riti. Öllum háttv. þm. mun vera það ljóst, að mótorbátaútvegurinn austanfjalls, sem þegar er orðinn mikill, og gæti orðið meiri, er í voða, ef ekkert er að gert. Og eini staðurinn á þessu svæði, sem líklegur er til hafnargerðar og allir hafa augastað á, er Þorlákshöfn. Jeg vænti því eindregið fylgis deildarinnar í þessu máli.