30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Magnús Kristjánsson:

Mjer finst þessi tillaga vera nokkuð óákveðin. Eins og allir sjá er ekki getið um, við hverskonar höfn er átt. En mikill munur getur verið á, hvort það er bátahöfn eða stórskipahöfn. Mál þetta hefir oftar komið til umræðu hjer á þingi áður, en jeg hefi aldrei orðið var við, að mönnum stæði það ljóst, hverskonar sú höfn væri, sem átt var við. Það er þægilegra fyrir landsstjórnina að vita, hve þingið ætlast til að þessi rannsókn verði yfirgripsmikil.

Síðasta rannsóknin, sem gerð hefir verið á þessum hafnarstað, eftir Jón verkfræðing Ísleifsson, virðist benda í þá átt, að tillögur hans sjeu aðallega miðaðar við fiskiskipahöfn, enda þótt hann geri sjer von um, að smærri vöruflutningaskip geti einnig fengið þar afgreiðslu. En raddir hafa heyrst um það, að einmitt á þessum stað ætti að koma upp stórskipahöfn, og að það ætti að geta orðið til þess, að hugmyndin um járnbraut frá Reykjavík austur um sýslur ætti þar með að vera úr sögunni. Þá horfir málið öðruvísi við, og það eru þessar stefnur, sem þyrftu að koma til athugunar.

Ef menn ætlast til, að gerð verði stórskipahöfn, og álíta það nauðsynlegt, myndu nokkur hundruð þúsund ekki hrökkva til þess.

Jeg verð að halda því fram, að ef tilætlunin er að gera trygga höfn fyrir stærri skip, myndi hún kosta nokkrar miljónir. Slík rannsókn myndi kosta mjög mikið fje. Þess vegna hefði þurft að koma skýrt fram, við hvað væri átt.

Jeg hefi minst á þetta vegna þess, að þó að málið hafi ekki komið í nefnd í Nd., þá er ástæða til að athuga það í nefnd hjer. Og jeg hygg það ógætilegt að hlynna að þeirri stefnu, að landið ráðist í stórkostleg hafnarfyrirtæki, þegar lítil eða engin skilyrði eru fyrir af náttúrunnar hendi, er greitt gætu fyrir. Fyrst er að bæta þar hafnir, sem siglingar eru og hafa verið miklar, og mikill hluti verksins sparast við það, að þar eru hafnirnar að nokkru leyti til frá náttúrunnar hendi.

Þetta hygg jeg að verði að vera stefnan, því að það er svo margt, sem landið þarfnast, sem útheimtir stór fjárframlög, og alt slíkt verður vandlega að athuga. Til stórskipahafnar á þessum stað er því varla hugsandi í nánustu framtíð, því að til hennar þyrfti miljónir. Hver, sem hefir athugað það voðaafl, sem hafið hefir þar, sem það legst að með fullu afli, hlýtur að játa, að hjer mun ekki duga höfn á borð við Reykjavíkurhöfn, heldur þarf miklu stærra mannvirki, ef hún á að vera örugg.

Það verður því að standa ljóst fyrir þinginu og landsstjórninni, um hvað er að ræða, hvort heldur fiskibátahöfn eða stórskipahöfn. Ef átt er við fiskibátahöfn, er rjettast, að stjórnin láti sem allra fyrst gera rannsóknir og áætlanir um hana.