14.08.1917
Efri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Sigurður Eggerz:

Það hneykslaði háttv. þm. Ak. (M. K.), að jeg sagði, að jeg ætlaði að eins að gera örlitla athugasemd við málið. Með því meinti jeg að eins tímann, sem jeg notaði til að gera þá athugasemd, að hann yrði örlítill. Hæstv. forseti hefir getið þess, hvað langar ræður kostuðu, og það var það, sem jeg tók fram, að jeg vildi ekki leggja þunga byrði á landssjóð, þótt mjer hins vegar hefði aldrei dottið í hug að vera samþykkur háttv. framsm. (M. K.).

Að öðru leyti held jeg, að háttv. þm. (M. K.) muni gera nokkuð mikið úr kostnaðinum við slíka rannsókn, að hún muni nema hundruðum þúsunda. Hitt er jeg alveg sannfærður um, að ef nú á að fara fram rannsókn, þá sje sjálfsagt að rannsaka bæði fyrir minni og stærri höfn. Annað mál er það, ef verkfróður maður álítur meiningarlaust að byggja þar stóra höfn, að mjer kemur ekki til hugar að halda því fram, að það skuli þá gert.

Mjer heyrðist á háttv. þm. Ak. (M. K.), að hann liti svo á, að það gætti fullmikils stórhuga hjá mjer, að jeg vildi láta rannsaka bæði atriðin um leið. Mjer virðist ekki koma svo mikill ofurhugi fram í því, og það enda þótt jeg vilji ekki fá útlent fjármagn til þeirrar rannsóknar. Og síst af öllu gæti mjer dottið í hug að gefa útlendingum fyrirtækið, ef þeir vildu kosta rannsóknina. En slík skoðun virðist mjer hafa komið fram í þessari háttv. deild í öðru máli.

Hæstv. atvinnumálaráðherra sagði, að till. nefndarinnar væri ólíkt aðgengilegri fyrir stjórnina, með því að þar væri alveg ákveðið, hvað hún mætti gera. Það getur vel verið, að landsstjórnin vilji helst láta binda sig alveg, þegar um einhverjar framkvæmdir er að ræða, en jeg verð að segja það, að væri jeg í hennar sporum, þá vildi jeg ekki láta binda mig, heldur eiga kost á að hafa stærra svigrúm til þess að geta valið heppilegustu leiðirnar, sem þinginu eru oft huldar, af því að það hefir ekki næga þekkingu á ýmsum sjermálum, eins og þessum.

Jeg býst ekki við því, að farið verði að orðum mínum um það að samþykkja till. háttv. Nd., en skal þó geta þess, að jeg álít rjettast að rannsaka skilyrðin bæði fyrir litla og stóra höfn þar. Eftir að slík rannsókn hefir átt sjer stað er það ákvörðun þingsins að ákveða, hvað gera skuli; það getur líka vel komið fyrir, að eftir að búið væri að byggja þar litla höfn þá sýndist það betra að byggja þar stóra höfn, og þá getur vel verið, að háttv. þm. Ak.

(M. K.) segði einhvern tíma, að betra hefði verið að gera það strax.

Ef till. háttv. Nd. verður feld hjer í deildinni, þá er ekki annað að gera en að samþykkja till. nefndarinnar, því að vitaskuld vil jeg heldur hafa hana en enga.

Jeg býst við, að þetta verði að vera síðustu orð mín í þessu máli, vegna þess, að jeg mun vera »dauður«, eftir hinum ómögulegu þingsköpum vorum.