03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

101. mál, stofnun og slit hjúskapar

Flm. (Einar Arnórsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hæstv. forsætisráðh. fyrir undirtektir hans, og er jeg honum sammála um, að brtt. háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) sje ekki til bóta. Jeg dró það út úr ræðu háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), að hann vildi láta taka ýmisleg atriði til greina, sem eru undanfari hjónaskilnaðar, og átti við það með orðinu »viðhald«. Jeg skil háttv. þm. (P. Þ.) ósköp vel, en get ekki annað sjeð en að orðið »slit« feli í sjer alt það, er skilnaði viðkemur, og því sje orðið »viðhald« óþarft eða jafnvel villandi. Jeg vil enn fremur vekja athygli á því, að orðið hjúskaparmál, sem háttv. þm. (P. Þ.) vill hafa í fyrirsögn till., er ofvítt á aðra hliðina, en ofþröngt á hina. Það orð er haft um dómsmál út af hjónabandi alment, og er að því leyti ofþröngt og því villandi. Á hina hliðina er það ofvítt, því að það getur náð til allra atriða, er hjúskap varða, þar á meðal fjármála hjóna, sem hvorki við flutningsmenn nje háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) ætlast til að þingsályktunartillagan taki til.

Brtt. háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) er því fremur til spillis en hitt, og hvernig sem á er litið alveg óþörf, og því er rangt að samþykkja hana.