10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

110. mál, fátækralög

Forsætisráðherra (J. M.):

Það mætti ef til vill þykja óheppilegt eða óviðkunnanlegt að skora þannig á stjórnina að endurskoða fátækralögin, svo framarlega sem þar kemur til minna kasta, sökum þess, að jeg var í nefnd þeirri, sem í upphafi útbjó fátækralögin, og í því formi voru þau síðan samþykt af þinginu því nær orði til orðs. Og jeg verð að telja það ekki vel kurteislegt að brúka svo hörð orð um lögin, sem í till. felast. Jeg skal játa það, að sum einstök atriði lít jeg nú dálítið öðruvísi á en áður. En jeg mundi ekki treysta mjer til þess að breyta lögunum, nema að minsta kosti kæmu fram bendingar um ákveðnar breytingar, enda á það við um lög eins og þessi, sem eru heildarlög.

Jeg hefi tekið það fram áður, að ef menn vilja ekki, að styrkur undir vissum kringumstæðum hafi áhrif á kosningarrjett manna, þá er hægt að koma þeirri breytingu fram án breytinga á stjórnarakránni.

Svo framarlega sem háttv. þingdeild vill aðhyllast þessa till., þá teldi jeg rjettast, að hún gengi til nefndar, og að hún tæki fram í aðalatriðum, hverra breytinga væri óskað. Eins og tillagan liggur fyrir er hún altof alment orðuð til þess, að hægt sje að taka hana til greina.

Háttv. flm. (J. B.) þykja lögin harðneskjuleg. Það getur verið, að eitthvað hafi breyst í þessum efnum frá 1905, er lögin voru sett, en þá voru þau samin í samræmi við löggjöf annara þjóða. Þó hefir þar sumt breyst lítils háttar í einstökum atriðum, og má vera, að þær eða svipaðar breytingar þurfi einnig að gera hjer, en þá þarf efni breytinganna, sem óskað er, að koma skýrt fram.