24.08.1917
Efri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

137. mál, siglingafáni fyrir Ísland

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg ætla engin rök að því að leiða, hver þjóðarnauðsyn það nú er orðin fyrir oss Íslendinga að fá vorn eigin fullkominn farfána; um það eru allir samdóma.

Nefnd sú, sem þessi háttv. deild setti í það mál, hefir athugað, hverjar leiðir væri heppilegast að fara, til þess að fá þessari þjóðarnauðsyn sem allra fyrst framgengt. Skal jeg, að því er þá niðurstöðu snertir, sem nefndin einróma komst að, vísa til álits hennar, sem prentað er á þgskj. 564 og jeg vænti að háttv. deildarmenn hafi við hendina.

Nefndin leyfir sjer að vænta þess, að allir háttv. deildarmenn geti fallist á skoðun hennar og greiði einróma till. á þgskj. 350 atkvæði sitt, svo að hún verði samþykt með einróma atkvæðum allra þeirra þm., sem um málið geta greitt atkvæði.

Er það hinn mesti styrkur fyrir hæstv. stjórn, sem nefndin veit að muni leggja alt kapp á að leiða mál þetta sem allra fyrst til sigurs, að hafa þannig yfir lýstan þingvilja við að styðjast.

Það er innileg ósk og von nefndarinnar, að hæstv. forsætisráðherra, er hann kemur heim úr væntanlegri utanför sinni á þessu hausti, færi oss konungsúrskurðinn um hinn eftirþráða fullkomna íslenska siglingafána.

Leyfi jeg mjer svo að beiðast nafnakalls um till. á þgskj. 350.