11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Björn Stefánsson:

Það var dálítil fyrirspurn til hæstv. stjórnar og fjárveitinganefndar, sem jeg vildi gera. Þegar stjórnin fór að úthluta dýrtíðaruppbót þeirri, er veitt var eftir þingsályktun síðasta þings, kom í ljós, að auk embættismanna fengu ýmsir aðrir starfsmenn landsins dýrtíðaruppbót, svo sem kennarar, brjefhirðingamenn, hreppstjórar, eða, eftir því sem jeg veit best, allir starfsmenn landsins, nema póstar og fasteignamatsmenn. Jeg veit um nokkra pósta, sem sendu fyrirspurn um, hvort þeir fengju nokkuð, og sama gerðu matsmenn Múlasýslna. Okkur Múlsýslungum svaraði stjórnin engu fyr en í vor, eftir ítrekaðar spurningar. Fengum við það svar, að stjórnin myndi leggja umsókn vora, ásamt öðrum samskonar málaleitunum, fyrir þingið. Nú sje jeg, að háttv. fjárveitinganefnd hefir tekið póstana að einhverju leyti til greina, en matsmennina ekki. Kann jeg ekki við, að þessum umsóknum sje ekki sint. Get jeg ekki betur sjeð en að matsmenn sjeu starfsmenn landsins, eins og brjefhirðingamenn og hreppstjórar. Nú er fyrirskipað, að matinu skuli lokið 15. júlí 1918, og þar, sem um stórar og fjölbygðar sýslur er að ræða, má nærri geta, að matsnefndirnar eru mjög bundnar, ef þær eiga að geta lokið starfinu í tæka tíð. Vildi jeg því gjarnan fá upplýsingar um, hvers vegna málaleitun þessari hefir ekki verið svarað af stjórninni, og fjárveitinganefnd hefir ekki heldur tekið hana til greina. Jeg veit ekki, hvort það er af því, að þeim, hæstv. stjórn og hv. fjárlaganefnd, virðast launin nógu há. Tel jeg þó varla líklegt, að hæstv. stjórn undanfelli matsnefndirnar af þeirri ástæðu, þar sem hún ætlast til — samkvæmt frv. því, sem hún lagði fyrir þingið — að embættismenn allir, sem hafa kr. 13,70 í daglaun eða minna, fái dýrtíðaruppbót, og það þótt þeir þurfi engu til embættis síns að kosta öðru en sinni eigin vinnu, en fái ferðakostnað goldinn eftir reikningi, ef þeir þurfa að heiman í embættiserindum. En matsmenn eru að mestu bundnir við þetta starf í 2—3 ár, og hafa 5 kr. á dag í laun og ferðakostnað, og annað ekki.

Úr því að jeg stóð upp, vil jeg lítillega minnast á annað mál. Hæstv. forsætisráðherra bar saman kröfur Austfirðinga og Sunnlendinga um skólana. En þar er ólíkt á komið. Austfirðingar hafa enga mentastofnun hjá sjer, en Sunnlendingar búa rjett hjá Reykjavík, og þar er gnægð allskonar mentastofnana. Finst mjer nokkuð ólíkt, hvort Hafnfirðingar þurfa að sækja skóla til Reykjavíkur, eða Austfirðingar til Reykjavíkur. Jeg ætla ekkert að leggja til málanna um Flensborgarskólann, því að hann hefir á sjer gott orð, en jeg vildi að eins gera samanburð þennan á kröfum Austfirðinga og Sunnlendinga og leyfa mjer að benda á það, að þó að landið taki við Eiðaskólanum, þá getur því, út af fyrir sig, ekki fylgt nein skylda til þess að koma á fót samskonar skólum í öðrum landsfjórðungum, því að bæði fylgja hjer svo miklar eignir, sem Austfirðingar láta af hendi, og svo er þetta ekki nema spor í þá átt að láta Austfirðinga ná því jafnrjetti gagnvart hinum landsfjórðungunum, sem þeim alt að þessu hefir verið neitað um.

Um tillagið til Breiðafjarðarbátsins er það að segja, að jeg greiddi atkv. með því í nefndinni, að styrkurinn væri ákveðinn 4000 kr. Mig skorti kunnugleika á málinu til þess að geta skorið úr, hvað væri hæfileg upphæð. Í nefndinni komu einmitt fram svo sundurleitar kröfur. Sumir vildu hækka styrkinn upp í 6000 kr., en sumir jafnvel fara niður í 2000 kr. Mjer leist því best, þar sem jeg var ekki sem kunnugastur, að aðhyllast þessa till., þar sem hún var miðlunartill. milli hinna tveggja. (B. J.: En jeg er manna kunnugastur).

En í nefndinni eru líka menn, sem jeg hjelt að væru ekki síður kunnugir, og líta nokkuð öðrum augum á þetta atriði, og þeir telja jafnvel 2000 kr. alveg nógu hátt, eftir atvikum, því að þeir halda því fram, að tap útgerðarinnar stafi sumpart af atvikum, sem þinginu eru alveg óviðkomandi, og óverjandi væri, ef það færi að bæta.