09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

141. mál, ásetningur búpenings

Þorleifur Jónsson:

Það er enginn efi á því, að nú getur það verið mesta nauðsyn að gera sjerstakar ráðstafanir til að tryggja bústofn bænda. Það mætti líta svo á, að það væri einhver hin mesta óhamingja, sem yfir þessa þjóð gæti dunið, ef fóðurskortur yrði, svo að fellir hlytist af. Að þessu leyti tel jeg það mjög vel til fallið að skora á hreppsnefndir að vera á verði, og mjer þykir sjerstaklega vænt um, að háttv. landbúnaðarnefnd hefir sjeð, að ekki var alt sem best trygt, þótt við hefðum þessi svo kölluðu forðagæslulög. Það hefir sýnt sig áður, að þrátt fyrir forðagæslulögin hefir orðið fellir í ýmsum landshlutum síðan þau lög voru samin, og þau eru því ekki einhlít bjargráð, enda hyggur nú landbúnaðarnefnd hjer það miklu betra ráð að snúa sjer til almennings og fá hann til að taka málið í sínar hendur. Jeg hygg líka best, að hreppsnefndir og bestu menn hverrar sveitar fái menn með góðu til að athuga, hvílíkur voði er á ferðum, ef fóðurskortur verður. Jeg tel till. fara í rjetta átt, og vil því leyfa mjer að mæla með því, að hún verði samþykt. En það getur þó hugsast, að hún nái ekki nógu langt. Það má ætla, að á Norðurlandi verði nægar heybirgðir, en hjer á Suðurlandi og í Skaftafellssýslum, þar sem alt hey er að rotna niður af óþurkum, geta orðið stór vandræði í vetur, ef þingið sjer ekki neitt bjargráð. Það væri ekki neitt sjerlega efnilegt fyrir bændur og búalið að verða nú í haust að skera niður bjargargripi sína, vegna ónógra og vondra heyja. Það virðist heppilegra, ef hægt væri að afla innlends fóðurbætis, ef taðan ónýtist. Mjer dettur í hug, hvort ekki væri hægt að fá síldarmjöl og síld, ef reynt væri nú þegar. (S. S.: Bjargráðanefndin hefir haft það mál til meðferðar). (E. A.: Og kemur bráðum með þingsályktunartillögu um það). Jæja, mjer var ekki kunnugt um það, en úr því að bjargráðanefndin ætlar að koma með þingályktunartillögu um það, sje jeg ekki ástæðu til að ræða það frekar. Jeg býst við, að þinginu sje það ljóst, að hjer er um mikilsvert mál að ræða, sem hefir mikla þýðingu fyrir þetta land. Jeg vil því mæla hið besta með þingsályktunartillögunni.