09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

141. mál, ásetningur búpenings

Björn Stefánsson:

Jeg ætla að leyfa mjer að leggja þessari till. liðsyrði, af því að jeg held, að háttv. framsögumaður (J. J.) sje dauður.

Jeg held ekki, að hún sje eintómt pappírsgagn, eins og sumir háttv. þm. halda fram. Jeg þekki það vel, að forðagæslulögin koma ekki að tilætluðum notum og er slælega fylgt. Jeg býst við því, að menn finni nú á þessu hausti venju fremur til nauðsynjarinnar á því að setja á fóðurforða sinn með fullri forsjá. En jeg efast um, að nokkuð verði úr framkvæmdum til að varna því, að ógætilega sje farið, ef ekkert er gert til að hvetja menn og vekja.

En eitt vildi jeg taka fram, sem ekki hafa aðrir minst á. Brjefunum frá stjórninni til sveitarstjórnanna ætti að fylgja tilboð um fóðurbæti til þeirra, sem senda pöntun í tíma. Stjórnin ætti að kynna sjer, hvað til er af fóðurbæti í landinu og hvað hægt er að útvega, áður en hún sendir brjefin. Það ætti að vera hægt fyrir stjórnina að útvega síldarúrgang frá síldarstöðvunum fyrir norðan, og mjer finst sjálfsagt, að hún kynni sjer það, hvað til er í landinu og hvað hægt er að útvega, áður en hún fer að senda út áminningar og viðvaranir. Hún þarf áður að vita, hvað hún hefir úr að moða til að hjálpa þeim, sem taka aðvörunina til greina og til hennar vilja leita. Þess vegna vil jeg, að áminningunni fylgi tilboð um útvegun á því, sem um kann að verða beðið og kostur er á að útvega.