13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

154. mál, fóðurbætiskaup

Sveinn Ólafsson:

Mjer finst jeg hafa gilda ástæðu til að lýsa afstöðu minni til þessarar till. Jeg er alvanur að nota þann fóðurbæti, sem hjer er um að ræða; hefi gert það í mörg ár. Hann er ágætur til skepnufóðurs, en ekki nema hann sje vel verkaður og geymdur í vel heldum ílátum. En að mínu viti er einn hængur á þessum fóðurbætiskaupum. Mjer skilst sem sje, að ef síldin á að vera nægilega vel verkuð, þurfi í hana mikið salt, og það er afskaplega dýrt. Í eitt steinolíufat af síld mun eigi veita af salti fyrir 15 —20 kr., og verður þá síldin óvenju dýr. Auðvitað er fenginn mikill fóðurbætir í einu fati af góðri síld. Aðrar leiðir eru til, og er rjett að nefna þá aðferðina, sem auðveldust er og allir þekkja. Það er hagnýting fiskúrgangs, hausa og hryggja. Þann fóðurbæti má geyma án salts og umbúða. Gamla aðferðin var að herða þetta fiskfang og lýja það á steini, áður notað væri til fóðurs.

Í hverri veiðistöð landsins fellur mikið til af þessu, þótt ekki sje hirt og væri vissulega gerlegt og tilvinnandi að gera ráðstafanir til, að safnað yrði þessum fóðurbæti í stórum stíl, auk heldur fyrir opinbert fje.

Jeg viðurkenni fyllilega, að till. þessi gengur í rjetta átt, þá að leita að leiðum til að útvega fóðurbæti. Jeg vildi að eins segja þetta, áður en gert væri út um forlög þingályktunartillögunnar. Nú er um það eitt að velja að safna þeim innlendum fóðurbæti, sem auðfengnastur er og notabestur.