11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Magnús Guðmundsson:

Mjer þykir leitt, að háttv. frsm. (B. Sv.) skuli vilja skoða það sem prentvillu, að Sauðárkrókur sje endastöð hjer umrædds báts, því að það er blátt áfram nauðsynlegt, að endastöð þessara ferða sje á Sauðárkróki. Að öðrum kosti er Skagafjörður eini stóri fjörðurinn á landinu, sem engar bátaferðir hefir. Að vísu er það satt, að ekki var farið fram á það í vetur að fá neinar slíkar ferðir. En það var fyrir þá sök, að verslunarfjelag, sem á verslanir bæði á Akureyri og Sauðárkróki, hefir haft skip til vöruflutninga milli verslananna, og væntu menn þess, að þær ferðir mundu haldast En nú hafa verslanirnar engar vörur að flytja, og ferðirnar því lagðar niður. Nú er því full þörf á, að bátsferðum verði komið á, með styrk úr landssjóði. Jeg legg því til, að orðalag brtt. sje látið standa til 3. umr., enda er varla hægt að skoða þetta sem prentvillu. Við 3. umr. mun jeg svo koma með brtt. um að hækka styrkinn sem svarar því, að báturinn gangi alla leið til Sauðárkróks, og þá þarf engar aðrar breytingar. Vænti jeg, að háttv. samgöngumálanefnd geti fallist á þetta, um leið og þessi liður er leiðrjettur.