14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

154. mál, fóðurbætiskaup

Sveinn Ólafsson:

Út af nokkrum orðum, er fjellu við 1. umr. um tillögu þessa, datt mjer í hug að standa upp. Þá komu sem sje upplýsingar um, að kostur væri að fá síld síðan í fyrra norður í Eyjafirði. Væri hún gott gripafóður, þótt ekki væri hún talin hæf til útflutnings. Það getur hugsast, að þetta sje tiltækilegt, en þó er mjög vafasamt, að síld, sem hefir verið geymd síðan í fyrra, þoli að geymast enn sumarlangt Slík vara er afarvandgeymd, og komist skemd eða þrái í hana, þá er hún alónýt eftir nokkra geymslu. Er því mjög varhugavert að festa kaup á miklu af þessari síld, og verður að hafa gott eftirlit með henni, ef hún á ekki að ónýtast. Eins og þeir vita, sem vanir eru síldarverkun, verður að pækla þá síld mánaðarlega, sem á að verða góð vara, og komist þrái að mun í síldina, eyðilegst hún og verður alveg óhæf til gripafóðurs. Jeg vildi taka þetta fram, af því að mjer fanst svo ofarlega í deildarmönnum að hallast að till. með þetta fyrir augum.

Í öðru lagi var það vefengt, sem jeg sagði við 1. umr. um söltun síldarinnar. Fult steinolíufat af síld verður ekki varið skemdum lengi með 60 pd. af salti. Það er gömul venja að salta með 50— 60 pd. í strokktunnu hverja. En steinolíufat tekur tvöfalt meira. Jeg tók þá fram, að salt í eitt fat mundi kosta 15— 20 kr. Því að ef saltið kostar 300 kr. smálestin, eins og nú er, þá kostar pd. 15 aura. Eftir venju mundi fara 100— 120 pd. í eitt steinolíufat, svo að þessi útreikningur mun ekki fjarri lagi.

Jeg vil svo að lokum gefa vini mínum, hv. þm. Stranda. (M. P.), það heilræði, ef hann skyldi verða síldarkaupmaður, að salta aldrei svona lítið, því að hvorttveggja myndi með því gersamlega eyðilagt, ávinningurinn af sölunni og álit kaupmannsins.