11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Hákon Kristófersson. Háttv. þm. Stranda (M. P.) mæltist til þess, að einhver úr samgöngumálanefndinni styddi með rökum 4000 kr. styrkveitinguna til Breiðafjarðarbátsins. Mjer vitanlega mun samgöngumálanefndin ekki geta stutt hana með neinum ábyggilegum rökum. Samgöngumálanefndin setti hana af handahófi. Það, sem fyrir lá, var að eins umsókn frá útgerðarmönnum bátsins um rúman 7 þús. kr. styrk. En sú umsókn var ekki studd, eða rjettara sagt ekki gerð frekari grein fyrir henni en á þá leið, að fjelagið mundi hafa tapað sem því næmi á útgerðinni í vetur.

Mönnum kann nú að virðast það undarlegt, að jeg var á móti svona hárri styrkveitingu, 7 þús. kr., þar sem jeg þó er úr hjeraði, og þingmaður fyrir kjördæmi, sem á að njóta bátsins. En jeg hefi ekki sjeð næga ástæðu til að veita þennan styrk eins mikinn og fram á hefir verið farið, og það mætti því ef til vill kenna mjer um, að hann er ekki settur hærri. Mjer er ekki ljóst, við hvað beiðni útgerðarmannanna hefir að styðjast, og mjer finst það varhugaverð leið að borga svona mikið fje eftir á, því að það gæti ef til vill orðið til þess að skapa fordæmi, ef út á þá braut væri farið. Jeg bjóst við, að styrkurinn til bátsins yrði hækkaður á næsta fjárhagstímabili, þannig að hann yrði 20 þús. kr., og taldi jeg það miklu sjálfsagðara en að veita mikinn aukastyrk í aukafjárlögum. Ef háttv. þm. Dala. (B. J.) vildi koma með brtt., sem færi fram á nokkru lægri upphæð, þá mundi jeg verða með henni, því að nú er það sýnt, að þingið mundi ekki vilja veita hina umbeðnu upphæð, 20 þús. kr., til bátaferða um Breiðafjörð etc. á næsta fjárhagstímabili, sem jeg verð þó að telja fyllilega rjettmætt. En jeg tel ekki rjettmætt að borga eftir á upphæðir, sem ekki eru reikningslega studdar. Þess vegna er jeg á móti þessari styrkveitingu, eins og hún var upphaflega, eða vil að minsta kosti hafa hana að mun lægri. Jeg get líka getið þess, að eftir að þetta var til umræðu í samgöngumálanefndinni var samþykt þar aukafjárveiting til annars hjeraðs, sem var nokkru hærri en jeg taldi rjettmætt. En þar sem meiri hluti háttv. samgöngumálanefndar hefir tekið svipaðar beiðnir annarsstaðar frá til greina, að mestu eða öllu leyti, þá tel jeg ekki rjettmætt að fara aðra leið gagnvart okkur á Breiðafirði. Því mun jeg, ef til kemur, greiða atkv. með brtt., ef fram kemur, sem færi í hækkunaráttina, t. d. 5 þús. kr.