18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

157. mál, landsreikningarnir 1914 og 1915

Frsm (Magnús Guðmundsson):

Af því að ekki var talað við fyrri umræðu um þessar tillögur, ætla jeg nú að minnast fám orðum á þær.

Fyrsta tillagan fer fram á það, að ráðuneytið sjái um, að landsreikningurinn fyrir hvert ár verði framvegis tilbúinn eigi síðar en í lok nóvembermánaðar næst á eftir. Um þetta var svo ítarlega talað, þegar rætt var frv. um samþykt landsreikninganna, að jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um það nú.

Önnur tillagan er um, að hraða beri hinni umboðslegu endurskoðun eftir föngum. Um þetta hefir ekki verið talað sjerstaklega áður, og mun jeg því minnast á það.

Það er vitanlegt, að hin umboðslega endurskoðun landsreikninganna er umfangsmikil og að vörutollurinn gerir hana stórum erfiðari en hún var áður. Mjer hefir nú dottið í hug, hvort ekki mætti gera þessa endurskoðun nokkru óbrotnari, með því að fara ekki jafnnákvæmlega út í smáatriði og gert hefir verið. Það þarf að sjálfsögðu að fara yfir alla reikningana, en það liggur við, að segja megi, að athugasemdirnar við þá sjeu helst til nákvæmar, þar sem athugasemd er gerð, þótt ekki skakki nema 10—20 aur. of eða van.

Með þessu geta athugasemdir við reikning komist upp í 80—100, og niðurstaðan þó orðið sú, að ekki skakki nema fám aurum á aðalupphæðinni, og liggur við, að þessi nákvæmni borgi ekki pappír og fyrirhöfn. Mjer finst gerlegt, að sett væri eitthvert lágmark þeirrar skekkju, sem athugasemd væri gerð um, t. d. 20 aur. Þessu er hjer skotið fram til athugunar.

Þá er þriðja tillagan, um að reikningshaldarar landssjóðs geri í tæka tíð reikningsskil fyrir því fje, sem þeir innheimta eða hafa undir höndum.

Það er til skrá yfir það, hve nær tekjur hafa verið greiddar af bæjarfógetum og sýslumönnum árið 1914, — fyrir árið 1915 veit jeg ekki til að hún sje til —. Eftir þeirri skrá að dæma er ekki ástæða til að kvarta yfir reikningsskilum þeirra yfirleitt; þó hefir yfirskoðunarmönnum landsreikninganna þótt nokkur misbrestur á því hjá sumum. Það er og upplýst, að reikningur stofnunar einnar var eigi gerður fyr en í maímánuði árið eftir, sem er óhæfilega seint. Nefndinni þótti því rjett að bera fram tillögu þessa.

Enn er ein tillagan um það, að frímerkjabirgðir stjórnarráðsins og póstmeistara verði taldar við hver áramót og skýrslur um þær látnar fylgja landsreikningnum til yfirskoðunarmanna. Um þann lið var áður talað, svo að jeg sje ekki ástæðu til að rifja það upp nú. Sama er að segja um síðustu tillöguna, um að reikningar landssjóðverslunarinnar verði gerðir upp; um það mál hefir áður verið talað, og sleppi jeg því nú.