18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

157. mál, landsreikningarnir 1914 og 1915

Einar Arnórsson:

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) var að kvarta yfir því, að yfirskoðunarmenn landsreikninganna hefðu ekki fengið nógu kurteis andsvör hjá stjórninni við athugasemdum þeirra um landsreikningana. Fyrir reikninginn 1915 þarf jeg engu að svara, því að svör við hann heyra mjer ekki til. En um reikninginn 1914 er það að segja, að það varð að ráði, að landritarinn semdi og undirritaði svörin þar, því að hann var öllu kunnugur, en jeg hafði engin afskifti haft af stjórn landsins það ár, og hafði auk þess nógu öðru að sinna. Landritari samdi því svörin og undirritaði þau fyrir hönd ráðherra. Að þessu leyti kemur mjer málið ekki við. En þó eru atriði í þessu máli, sem jeg vil minnast á. Jeg býst við, að það hljóti að vera mjög orðum aukið hjá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og yfirskoðara landsreikninganna, að landritarinn, sem svo mikið hefir verið við landsstjórnina riðinn og er svo æfður embættismaður, kunni ekki að svara svo sem sæmilegt er og við á. En sumar athugasemdirnar eru þannig úr garði gerðar, að ekki er fullauðvelt að svara þeim á þann veg, sem yfirskoðunarmönnum mundi best hafa geðjast að. Þær eru sumar hverjar harla nærgöngular sumum starfsmönnum opinberra stofnana, og bera þeim á brýn athæfi, sem ekki má sæmilegt teljast. Jeg skal ekki um segja, hvern þátt háttv. þm. (M. Ó.) hefir átt í athugasemdum þessum; en það hefir komið í ljós, að þar eru gerðar getsakir algerlega tilefnislaust, og undir þetta hefir háttv. þm. (M. Ó.) sett nafn sitt.

Þá var háttv. þm. (M. Ó.) að tala um, að stjórnin hefði safnað liði gegn yfirskoðunarmönnunum. Hann kallar það að safna liði, að stjórnin leitar umsagnar þeirra manna, sem athugasemdirnar beinast að, svo sem landsverkfræðingsins um það, sem hann snertir, og símastjórans um símamál o. s. frv. Mjer þykja það harðir kostir, ef stjórninni á ekki að vera heimilt að leita umsagnar þeirra manna, sem kunnugastir eru málavöxtum og yfirskoðunarmenn beinast sjerstaklega að. Jeg hefði haldið, að háttv. þm. (M. Ó.) væri svo skynsamur, að hann bæri ekki annað eins og þetta á borð. Það er ekki einungis rjettmætt, að stjórnin fór svo að, sem hún gerði, heldur líka skylda hennar, og það ætti líka að vera í þágu sjálfra yfirskoðunarmannanna, því að vonandi telja þeir ekki það eitt hlutverk sitt að finna að, heldur og hitt, að fá sem sannastar upplýsingar um það, sem þeir vita ekki nje skilja. Það væru og hinar mestu firrur að halda því fram, að stjórnin ætti að hafa sjálf allar þessar upplýsingar á reiðum höndum, því að seint mun svo forspá stjórn sitja í valdasessi, að hún sjái fyrir, að hverju endurskoðunarmenn kunna að spyrja.

Háttv. þm. (M. Ó.) spurði að því, hvað yfirskoðunarmennina varðaði um, hvert álit undirmenn stjórnarinnar hefðu á hinu eða þessu atriði.

Til þess er sama að svara og jeg nefndi áðan; yfirskoðunarmennina varðar um að fá sem skýrust svör, og þeim má á sama standa, hvaðan þau koma, að eins að þau sjeu ljós og ábyggileg.

Um reikninga landssjóðsverslunarinnar er þetta að segja. Sumarið 1915 gerði stjórnin þinginu rækilega grein fyrir verslun landssjóðs til þess tíma, og sameinað Alþingi skipaði þá nefnd til að rannsaka málið. Sú nefnd taldi verslunina hafa vel gengið. Á aukaþinginu 1916—17 var 12 manna þingnefnd einnig sett til að rannsaka gerðir fyrverandi stjórnar um verslunarmálin. Enn fremur fjekk þingið þá skýrslu um verslun landssjóðs, auk annara styrjaldarráðstafana. Í þessari nefnd voru sumir mestu andstæðingar stjórnarinnar, sem þá var, og hefðu þeir vafalaust vítt það, er ámælisvert var sjerstaklega.

Um landsreikninginn 1914 tek jeg fram, að jeg hefi enga ábyrgð á ráðstöfunum þess árs, og yfir höfuð enga efnislega ábyrgð á honum, að eins formlega, eins og jeg hefi áður sagt.

Um landsreikninginn 1915 er þar á móti það að segja, að á ráðstöfunum þess árs ber jeg auðvitað ábyrgð, en enga ábyrgð á því, hvernig hann er gerður að forminu til. Núverandi stjórn hefir hana. Samningur landsreikninganna er annars skrifstofuverk, sem ráðherrar hafa aldrei sjálfir unnið. Væri þeim slíkt ómögulegt, og síst var mjer slíkt mögulegt með öllu því, sem jeg hafði að gera, vegna stríðsins og annars. Núverandi stjórn hefði auðvitað getað látið gera viðhlítandi upp verslunarreikninginn áður en hún skilaði landsreikningnum, og í rauninni er hann gerður upp. Það sýnir sjálfur landsreikningurinn 1915, en reikningshaldarinn hefir reiknað eitthvað skakt, »posterað« rangt. Og veit jeg eigi, hvernig er hægt að skamma mig fyrir skakka »posteringu« hjá skrifstofustjóra stjórnarráðsins, eftir að jeg er þaðan farinn.

Um það, að landsreikningar sjeu seint gerðir, athugast þetta.

Fyrir landsreikninginn 1915 á núverandi stjórn að svara; en fyrir reikninginn 1914 ber mjer að svara, og er jeg, eins og hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), óánægður með, að hann gat ekki fyr komið en varð. Jeg ámálgaði það oft, að honum þyrfti að hraða, en fjekk jafnan sama svarið, að eigi væri hægt að hraða honum meir en gert væri. En þar eru ýms atriði svo persónulegs eðlis, að jeg tel ekki við eiga að fara lengra út í það mál hjer.