07.09.1917
Efri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

157. mál, landsreikningarnir 1914 og 1915

Fjármálaráðherra (S. E.):

Út af ummælum háttv. þm. Ísaf. (M. T.) vildi jeg segja nokkur orð.

Ráðuneytið mun að sjálfsögðu reyna að fullnægja till., eftir því sem frekast er hægt, en til þess að fullnægja henni er nauðsynlegt að auka starfskrafta í 3. skrifstofu stjórnarráðsins, og það er hægt nú, því að skrifstofan hefir verið stækkuð, svo að þar geta unnið fleiri menn. Og jeg, fyrir mitt leyti, legg áherslu á, að frá þessu sje vel gengið, en afleiðing af því er að auka starfskrafta stjórnarráðsins, og jeg hefi skilið háttv. fjárveitinganefnd Nd. svo, sem hún væri því samþykk. Enda væri það heimskulegt að spara fje í þessu efni; það er nauðsyn, að alt slíkt geti legið ítarlega og ljóst fyrir almenningi.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) spurði um hag landsverslunarinnar. Jeg skal játa það, að jeg er ekki svo vel kunnugur þessu atriði sem skyldi, en jeg býst við, að hæstv. atvinnumálaráðherra, sem hefir fylgst með störfum hennar, geti upplýst málið.

1. maí 1917 var gerður upp hagur verslunarinnar, og var hann þá svo:

Eignir:

Peningar í sjóði . . kr. 2385,30

Innieign í íslandsbanka — 246661,90

Innieign í Guaranty

Trust — 2185172,29

Skuldir viðskiftamanna — 700311,70

Hús og áhöld — 29730,56

Vöruleifar — 556306,60

Fyrirfram greiddar

vörur — 154360,40

kr. 3874928,75

Sku1dir:

Innieign landssjóðs . kr. 621037,06

Víxlar — 2750000,00

Innieignir viðskiftamanna — 173798,82

Skuldlaus eign — 330092,87

Samtals kr. 3874928,75

Jeg vil taka það fram um vöruleifarnar, að þær voru metnar með innkaupsverði, að viðbættum kostnaði, að því er jeg hygg.

Jeg vil láta þess getið, að hagur verslunarinnar er trauðla eins góður nú, því að síðan 1. maí hefir hún orðið fyrir tapi; jeg veit að minsta kosti um eitt slíkt tjón, er hún varð fyrir, og það er um olíuna með »Bisp«. Skipið varð fyrir óhappi, og það varð að selja olíuna hjer undir verði; tjónið á því hefir orðið um 80 þús. kr. Má vera, að verslunin hafi tapað á einhverju öðru, en neinu verulegu mun það ekki nema.

Jeg mun alvarlega vinna að því, að fengin verði glögg og skýr skýrsla um allan hag landssjóðsverslunarinnar, og, eins og kunnugt er, þá er fjárhagur verslunarinnar nú aðskilinn frá landssjóði, og mun svo gert verða framvegis.

Ef einhverju er ósvarað af því, er háttv. þm. Ísaf. (M. T.) óskaði svars um, þá vænti jeg, að hæstv. atvinnumálaráðherra svari því; hann er miklu kunnugri þessum efnum.