07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

161. mál, uppeldismál

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg skal reyna að vera stuttorður, þótt um merkilegt mál sje að ræða, og fylgja þeirri gullvægu reglu að láta sem minst bera á þeim mestu málum. Ef jeg væri einvaldur, þá mundi jeg umsteypa öllum uppeldismálum Íslands, frá efstu kenslustofnun niður í þá lægstu, og koma á nýju uppeldismálakerfi hjer í landi. Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að villa er í till. — ritvilla eða prentvilla —; hjer er eigi ætlast til að athuga uppeldismálakerfi alls heimsins, heldur Íslands eins.

En væri jeg, eins og jeg nýlega sagði, einvaldur í þessu máli, þá skyldi jeg ekki láta skólahald vera í þeim anda, sem nú er, nje heldur barnafræðsluna, því að það besta uppeldi, sem hægt er að láta börnum í tje, var það, sem ríkir menn meðal Rómverja og Grikkja gerðu, að hafa fasta heimiliskennara til að kenna börnum sínum. Þetta er áreiðanlega sú besta aðferð, eða þá það, að menn kendu þeim sjálfir, þeir sem því gætu við komið. Það er þessi hugsjón, sem jeg álít að við eigum að reyna að nálgast sem mest. Að vísu skal jeg játa, að í einstaka kaupstöðum gæti þetta orðið erfitt, og má vera, að nauðsyn bæri til að hafa þar einhverja barnaskóla, þar sem heimilin gætu annars ekki haldið sjerstaka kennara. En aðalatriðið er í mínum augum það, að allir menn yrðu færir til þess með tímanum að kenna sjálfir börnum sínum. Og til þess, að svo geti orðið, þurfa þeir auðvitað að hafa fengið gott uppeldi og góða fræðslu.

Nú er það mitt álit, að slíka fræðslu eigi menn að fá á aldrinum frá 16—20 ára. Því að reynslan hefir sýnt það, að það, sem börn læra á unga aldri, kemur ekki að tilætluðum notum, því að þau skilja það ekki til fulls. Barnshugurinn er ekki kominn svo langt á sinni þroskabraut, að hann kunni að skeyta saman skólana og sjálft lífið. Öðru máli er að gegna um unglinginn á aldrinum 16—20 ára. Hann á að vera orðinn svo þroskaður, að hann geti lært fyrir lífið, en ekki eingöngu fyrir skólana. Menn ættu í þessu að fara eftir hinni ágætu reglu Rómverja, sem segir: »Non multa, sed multum««, eða »ekki margt en mikið«. Það ber að leggja meiri áherslu á það að kenna vel það, sem kent er, heldur en hitt, að hafa það sem flest. Í slíkum alþýðuskólum, sem hjer er átt við, ætti ekki að kenna annað en lestur, skrift, íslenska sögu og landafræði, bókmentasögu og síðast en ekki síst íslenska tungu. Þessar námsgreinar á að kenna svo nákvæmlega og vel, að hver nemandi geti haldið áfram að læra eftir á og aflað sjer meiri þekkingar eftir þeim aðferðum, sem honum hafa verið kendar.

Að fara að bisa við að kenna mönnum útlend tungumál, áður en þeir kunna sitt eigið sómasamlega, eins og nú tíðkast, það liggur mjer við a kalla sjálfsmorð á íslensku þjóðerni.

Þetta er nú það höfuðatriði, sem fyrir mjer vakir. Að vísu get jeg ekki með sanngirni krafist þess, að allir telji þetta rjetta hugmynd, þó að jeg álíti, að svo sje. En hitt hygg jeg, að allir geti verið á einu máli um, að það væri frekar til góðs en ills, að alt hið íslenska uppeldiskerfi væri rannsakað til hlítar. Sú rannsókn mundi svo aftur leiða í ljós, hvort þessu mundi best fyrir komið eins og jeg hefi hugsað mjer og hjer lýst, eða á einhvern annan veg. Jeg ætlast til, að hvert heimili sjái sínum börnum fyrir nauðsynlegri fræðslu og uppeldi. Hvað snertir trúarbragðakenslu barna, þá læt jeg hana liggja algerlega milli hluta. Það fer eftir, hvort þjóðkirkja er hjer eða ekki.

Og jeg er þeirrar skoðunar, að slíkt þýði hvorki að banna nje fyrirskipa. En hins vegar hygg jeg, að haga megi þeirri kenslu svo, að hún skaði ekki sálarþroska barnanna.

En það, sem ber að leggja mesta áherslu á við kensluna, er að börnin læri að lesa vel og reikna vel. Það dugir enginn yfirborðslærdómur í reikningi, eins og svo oft vill verða; þau verða að læra að reikna fljótt og með fullum skilningi; því að eins þroskar þessi námsgrein börnin á rjettan hátt, svo að þau geti notað sjer þær sömu rannsóknaraðferðir, þegar þau þurfa að ráða fram úr ýmsum »dæmum« lífsins í framtíðinni. Þetta hygg jeg að sje ekki til ofmikils ætlast, þegar þessir framhaldskólar, sem jeg nefndi, hafa starfað í nokkur ár með þessu fyrirkomulagi, og þeir, sem þar hafa lært, eru farnir að kenna. Það munu fleiri en jeg hugsa á þann veg, að allir þessir mörgu skólar, sem nú tíðkast, hafi ekki aukið hina sönnu þekking manna að sama skapi, heldur átt sinn þátt í að drepa fróðleiksfýsn þeirra og dregið úr eðlilegri löngun manna til að fræða sín eigin börn. Og jeg efast um, að fræðslan sje í betra lagi nú en meðan heimilin sjálf önnuðust hana með eftirliti presta. Jeg vil enn fremur geta þess, hversu sorglegt er að sjá, hve langt núlifandi Norðurlandaþjóðir standa fornmönnum að baki í því að ala upp sín börn.

Menn þekkja það af sögunum, hvað mikla áherslu þeir lögðu á íþróttir og annað, sem fegurst er í lífinu. Það er líkt og hjá Grikkjum, sem voru mesta menningarþjóð heimsins og engin þjóð hefir náð enn þann dag í dag. Hjá þeim var aðalþáttur uppeldisins íþróttakensla og söngkensla og alt það, sem opnar augu manna fyrir því fegursta í lífinu, svo að þeir geti notið unaðssemda þess með hreinni og sannri gleði. Og er það meira virði fyrir hverja þjóð en þótt hrúgað sje saman svo og svo miklu af gulli. Það út af fyrir sig jafnast ekki á við bjartsýna lífsgleði, samfara þróttmikilli starfslöngun. Þetta alt á að hafa sitt upphaf í sjálfum heimahúsum, en svo er skólunum ætlað að leiða menn áfram á þeirri sömu braut. Þess vegna er auðvitað sjálfsagt, að þar sjeu iðkaðar íþróttir og söngur miklu meir en verið hefir. Þar ætti hver karl og kona að læra til fullnustu að synda, hlaupa á skíðum og skautum og enn fremur að læra söng eftir því, sem föng væru á, og helst að leika á eitthvert hljóðfæri, og á jeg þar við slaghörpu eða fiðlu, sem eru hljómfegurst og best til þess fallin. Jeg vil í þessu sambandi minna menn á söguna um Þemistókles, sem var talinn lítt mentaður maður fyrir þá sök, að hann neitaði að taka við hörpunni einu sinni, er hann var staddur í samkvæmi (Themistocles indoctior habebatur, quia lyram recusarei). Það þótti svo sjálfsagður hlutur þá, að menn kynnu að fara með þetta hljóðfæri. Annars held jeg, að menn þyrftu ekki að óttast, þótt höfð yrðu endaskifti á öllu skólahaldi hjer á landi. Það er sniðið eftir útlendum þjóðum, nema hvað það er miklu ófullkomnara hjer, og það er því margt, sem mætti missa sig. Það mundi verða okkur Íslendingum til mikils sóma, ef við tækjum upp í uppeldiskerfi okkar það, sem var best hjá bæði Forn-Íslendingum og Grikkjum, og hagnýttum okkur það. Jeg vona, að enginn skilji þessi orð mín svo, að jeg vilji kippa oss aftur í fornaldir, heldur er það hugsun mín að taka það besta frá vitrustu mönnum fornaldarinnar og sameina það því besta, sem nú þekkist. Jeg vil líka geta þess, að þessi skóli, sem hjer er kallaður kennaraskóli, er alt annað en hann á að vera. Hann er að mínum dómi ekki annað en gagnfræðaskóli, eða eins og þeir skólar gerast. Auðvitað má segja um þann skóla eins og aðra, að það er kennaraskóli að því leyti, að þar læra þeir menn að kenna, sem hafa vit á að taka vel eftir góðum kennurum. Það, sem jeg hefi lært til kenslu, hefi jeg alt frá mínum ágætu kennurum, t. d. prófessor Höfding o. fl, og þótt jeg nefni síðastan, þá ekki sístan, föður mínum.

Það þarf að kenna annað í kennaraskólum heldur en nú er kent, og góðir kennarar eru ekki einhlítir. Þar er mest þörf á sjerstakri kenslugrein í sálarfræði, og þá helst því, sem lýtur að uppeldi, sem getur veitt mönnum ábyggilega þekkingu á sál barnsins. Máltækið segir: »Hvað skal sá í kór, sem kann ekki að syngja«. Líkt má segja um kennarana. Hvernig er hægt að ætlast til, að þeir menn geti leikið á strengi barnssálarinnar, sem enga þekkingu hafa á, hvernig þeim er niður raðað? Þetta er ekki kent í öðrum skólum. En það er engu síður mikilsvert fyrir þá sök, því að það er talsverður ábyrgðarhluti að móta barnið að einhverju leyti á meðan það tekur best við utan að komandi áhrifum.

Nú er það auðvitað ætlun mín, að menn fari ekki í þennan skóla fyr en þeir hafa lokið námi í gagnfræðaskóla. Þá ætlast jeg til, að þeir lesi sálarfræði og uppeldisfræði í 2—3 ár í kennaraskóla, undir handleiðslu góðra kennara, sem jafnframt leiðbeindu í kensluaðferðum. Með þessu móti hygg jeg að mætti fá góða kennara, sem menn gætu lært að virða og fara vel með. Það dygði ekki að bjóða þessum mönnum nokkur hundruð krónur á ári í laun, eða að láta þá sæta jafnómannúðlegri meðferð og nú á sjer stað. Því að það er öllum kunnugt, þótt það standi óbætt þann dag í dag, að allur þorri kennara getur ekki um frjálst höfuð sjer strokið fyrir skuldum. Þeir verða að sætta sig við að ganga ver til fara heldur en þrír fjórðu hlutar þeirra barna, sem þeir eru að kenna. Það munar víst minstu oft og tíðum, að þessir menn líði mikinn skort á lífsviðurværi. Þeir eiga því ekki annars kostar en gína yfir hverju beini, sem til þeirra er kastað, og grípa við hverri aukaþóknun, sem býðst, því að maginn vill hafa sitt, eins og þar stendur.

Jeg sje ekki, með hvaða sanngirni hægt er að gera miklar kröfur til þessara manna, sem sæta svo miskunnarlausri meðferð. Jeg veit, að jeg þarf ekki annað en að minna menn á þetta. Því að það vita allir menn, að það er hver búðarloka betur launuð hjer á landi heldur en þessir menn, sem trúað er fyrir að ala upp börn landsmanna. Það er óneitanlega hart að hugsa til þess, að lögfræðingar hjer á landi hafa altaf átt við kostakjör að búa á móts við kennarastjettina. En af hverju er það? Það er af því, að lögfræðingar hafa haldið vendinum reiddum á lofti, og þjóðin því ekki þorað annað en launa þá vel. En þessi sama þjóð lætur sjer sæma að kasta í kennarastjettina nokkrum aurum um tímann, ámóta og hún borgar salernahreinsurum sínum. Jeg segi þetta hjer til að benda á, að þessi hlið málsins þarf líka athugunar við.

Jeg hefi drepið á það í 5. lið tillögunnar, að það mundi sparast talsvert fje við það að hafa ekki sjerstaka gagnfræðaskóla fyrir karla og konur, heldur að fækka þeim og steypa saman bókfræðikenslu karla og kvenna í öllum almennum námsgreinum. Síðan ætti ekki að styrkja aðra kvennaskóla en þá, er kenna það eitt, er konur læra.

Þessi uppástunga mín er þó ekkert höfuðatriði fyrir mjer. En það, sem jeg legg mesta áherslu á, er að þessi rannsókn, sem jeg hefi talað um, verði hafin sem fyrst og þetta mál krufið til mergjar. Þó dylst mjer ekki, að þetta er mjög umfangsmikið verkefni, og jeg ætlast ekki heldur til, að því verði lokið fyrir næsta eða næstu þing. Til þess að koma þessari rannsókn í framkvæmd tel jeg heppilegast og æskilegast, að stjórnin skipi nefnd manna og fái heimild til að borga henni eins og sanngjarnt er. Þeir vitru menn, sem til þessa verða kjörnir, eiga svo auðvitað að koma með till. sínar í málinu.

Það, sem ber á milli í till. minni og háttv. flutningsmanna hinnar, er í raun og veru ekkert verulegt, svo að mjer stendur á sama, hvor tillagan verður samþykt. Að vísu er það eitt atriði hjá þeim, sem vantar í mína, en jeg þó taldi innifalið í henni. Aftur á móti er síðasta atriði minnar till. ekki í þeirra. En, sem sagt, þá læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvor till. nær samþykki, þótt jeg geri ráð fyrir, að alt verði þetta rannsakað. En svo er hjer ný till. á þgskj. 494, frá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Jeg skal ekki mæla neitt á móti henni. Það kann vel að vera rjett hjá háttv. flm. (S. S.), að skólar mundu verða þjóðlegri, og þeim má ske betur fyrir komið, ef þeir stæðu utan kaupstaða.

Jeg vil svo að endingu geta þess, áður en jeg sest niður, að jeg horfi með ótta fram í tímann, ef við svo búið á að standa og ekki verður hafist handa. Jeg fæ ekki betur sjeð en að þjóðin sje á leið til þess að verða að einskonar uppskafningi. Hún er á góðum vegi með að tapa þessu dýrmæta máli, sem hefir gefið henni allan þrótt alt til þessa dags. Sú braut, sem við nú göngum á, liggur, að því er jeg fæ best sjeð, beint norður og niður. Það væri því ekki að óþörfu, ef nú væri tekið í taumana, svo að við rennum ekki niður eftir þeim halla.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meir um þetta.