07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

161. mál, uppeldismál

Þorsteinn Jónsson:

Það munu vera 10 ár liðin síðan núgildandi fræðslulög gengu í gildi. Eins og við er að búast hefir komið í ljós, að þeim er í ýmsu ábótavant. Það er ekki nema eðlilegt, þar sem þá fyrst var innleidd skólaskylda hjer á landi. Það verður því ekki með sanngirni borið þeim mönnum á brýn, sem að lögunum stóðu, að þeir hafi ekki gætt allrar skynsemi. Þvert á móti voru lögin sett af gætni og fyrirhyggju. Og eins víst er hitt, að þeirra var mikil þörf.

Í upphafi kendi talsverðs andróðurs gegn þessum lögum, og var aðalmótbáran sú, að kostnaður af þeim mundi reynast óbærilegur. Ef jeg man rjett, þá reiknuðu einhverjir það út, að svo framarlega sem þessi lög gengju í gildi, þá mundu allir bændur á landinu vera orðnir gjaldrota eftir 4 ár. Sem betur fór reyndist þetta hrapallegur misreikningur. Og síðan, er menn hafa reynt lögin og sjeð, hvaða kostir fylgja þeim, hafa þeir sætt sig við þau. Eins og mönnum er kunnugt voru ákvæði laganna talsvert rúm. Menn áttu kost á að velja um þrennskonar fræðslu handa börnum sínum. Hafa lögin nú staðið í 10 ár, og mönnum því gefist ráðrúm til að sjá, hvað gott er við þau, og hvað betur mætti fara.

Jeg er nú þeirrar skoðunar, og jeg hygg, að það sje álit þeirra þjóða, sem lengst eru komnar í alþýðufræðslu, að það sje mjög varasamt að hringla mikið í fræðslumálum. Það má ekki gera nema brýn nauðsyn beri til. Fyrst og fremst hlýtur það að hafa mikinn kostnað í för með sjer. Og sje stofnað til breytinga án undangenginnar rannsóknar, er ekki nægileg trygging fyrir, að ekki verði breytt til hins verra.

Í þinglok 1915 kom fram till. til þingsályktunar um að setja milliþinganefnd til að íhuga skólamálin, en þeirri till. var hafnað.

Nú í sumar barst mentamálanefnd Nd. erindi frá Kennarafjelagi Íslands um, að nefndin tæki fræðslumálin til rækilegrar íhugunar og gerði þær umbætur, er Kennarafjelagið taldi nauðsynlegar vera. Jeg hefi ekki sjeð erindið, svo að mjer er ekki fullkunnugt um, hverjar þessar umbætur eru. En mentamálanefnd hefir víst svæft þetta mál. Aftur hefir formaður hennar, hv. þm. Dala. (B. J.), borið fram þingsályktunartill., á þgskj. 451, um að skora á stjórnina að rannsaka uppeldismálakerfi landsins. Jeg sje af þeirri till. og eins af framsöguræðu hans (B. J.), að hann er ekki ánægður með fyrirkomulagið, eins og það er nú, og vill breyta því og laga það. Jeg er í aðalatriðunum á sama máli, álít tíma til kominn að rannsaka þetta frumsmíði, lögin frá 1907, og bæta þau, eftir því sem reynslan sýnir, að betur má fara.

En þótt jeg sje háttv. þm. Dala. (B. J.) sammála í mörgum atriðum, er jeg þó ekki ánægður með einstök atriði till. hans, og hefi því leyft mjer ásamt háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) að bera fram brtt. á þgskj. 798, og heyrði jeg mjer til gleði, að háttv. þm. Dala. (B. J.) getur fallist á hana.

Það, sem okkur fyrst og fremst ber á milli, er að hann vill afnema skólaskyldu barna, en koma á skólaskyldu unglinga, en eftir till. okkar er að eins farið fram á, að athugað sje, á hvaða aldri skólaskylda sje hentugust, en við viljum ekki fullyrða þegar, að afnema skuli barnaskólaskylduna, eins og búið væri að rannsaka þetta mál. Hann ætlar stjórninni einni að athuga málið, en við teljum þetta svo mikilsvert mál og þurfa svo rækilegan undirbúning, að stjórnin geti ekki framkvæmt hann svo, að fullnægjandi sje, og teljum því verða að skipa nefnd í málið. Jeg heyrði á háttv. flm. (B. J.), að hann var ekki á móti því og taldi 3 menn mundu nægja, og er jeg honum sammála um það. Nú vill einmitt svo til, að það liggur í loftinu, að skólar verði lagðir niður mikinn hluta vetrar, ef ekki allan veturinn, svo að kennarar munu hafa miklu minna fyrir stafni en endrarnær. Jeg býst við, að stjórnin fái einhverja skólamenn hjer í Reykjavík til þess að athuga þetta mál, að minsta kosti fyrri hluta vetrar. Mjer dettur í hug einn maður, sem jeg tel sjálfsagðan í nefndina, en það er skólastjóri kennaraskólans. Eftir því, sem jeg hefi heyrt, eru lítil líkindi til, að sá skóli starfi í vetur, en sá maður er, að því er jeg þekki til, allra manna best til þessa starfs fallinn. Jeg geng vart út frá, að slík nefnd mundi hafa mikinn kostnað í för með sjer, því að jeg geri ráð fyrir, að þeir kennarar í Reykjavík, sem eru áhugasamir um þetta mál, geri það fyrir litla peninga. En til þess, að það atriði yrði ekki brtt. að fótakefli, höfum við borið fram viðaukatill. á þgskj. 843, þar sem stjórninni er heimilað að verja fje úr landssjóði þessu til framkvæmdar.

En nú vil jeg koma dálítið meira inn á skólaskylduna. Mjer þykir það nokkuð djarft, ef samþykt yrði það atriði í till. háttv. þm. Dala. (B. J.), sem ræðir um að koma á skólaskyldu á aldrinum 16—20 ára. Mjer blandast ekki hugur um, að á þeim aldri er hægt að læra miklu meira en á yngra aldursskeiði. En það verður að taka tillit til þess, hvaða tíma unglingarnir mega helst missa til þessa náms. Jeg álít, að vjer verðum að byggja á reynslu þeirra þjóða, sem lengst eru komnar. Mjer er ekki kunnugt um, að nein þeirra hafi tekið upp skólaskyldu á þessum aldri. Norðurlandaþjóðirnar, frændþjóðir vorar, hafa skólaskyldu á aldrinum 7 —14 ára. Aftur gæti komið til athugunar, hvort ekki ætti að breyta skólaskyldualdrinum eitthvað frá því, sem nú er, t. d. annaðhvort lækka lágmarkið eða hækka. Sömuleiðis gæti komið til mála að athuga efra aldurstakmarkið, hvort ekki væri rjett að fara eitthvað upp fyrir 14 ár, en þó tel jeg ógerlegt að fara upp í 20 ár. Hygg jeg, að stór meiri hluti þjóðarinnar myndi una því mjög illa, ef ætti að skylda alla unglinga á þessum aldri til að ganga í skóla. Það yrði afarmikið vinnutap. Svo er það víst, að þeir unglingar, sem eru mjög óhneigðir til náms, sætta sig ver við nám eftir fermingu. Um það hefi jeg reynslu sem kennari, bæði barna og unglinga.

Hv. þm. Dala. (B. J.) fór nokkrum orðum um heimilisfræðsluna, og taldi hana, sem rjett er, undirstöðu allrar fræðslu. Skal jeg síst mótmæla því, en fullmikið fanst mjer hann vilja byggja á fornum tíma og leggja fullmikla áherslu á heimilisfræðsluna. Skildist mjer, að hann teldi Grikki fyrirmyndina. En þar fanst mjer kenna nokkurrar ósamkvæmni. Það var ekki alstaðar í Grikklandi, að kensla fór fram í heimahúsum. Ef jeg man rjett, voru þau lög í Spörtu, að börn voru tekin 7 ára gömul og alin upp á kostnað hins opinbera í skólum ríkisins. Enda held jeg, að vjer verðum að byggja vora uppfræðslu á þeim grundvelli, sem smám saman hefir þróast, alt frá fortíð Grikkja og til þeirra tíma, er vjer lifum á. Uppeldisfræðin hefir þróast, og vjer getum ekki tekið það elsta sem aðalfyrirmyndina, því að það á ekki við nútíðina.

Þá er það atriði í till. okkar að koma föstu skipulagi á barna- og unglingafræðsluna, sem hefir verið mjög losaraleg. Barnafræðslan fer fram samkvæmt lögum og með föstu skipulagi, en unglingafræðslan er mestmegnis í höndum einstakra manna, er komið hafa upp unglingaskólum, en engir fastir skólar, og er full nauðsyn á, ef fræðslumálin eru tekin fyrir, að unglingaskólunum verði komið í fast horf. Jeg álít mjög nauðsynlegt að hlynna að þeirri fræðslutegund, en vil ekki, að þar sje komið á skólaskyldu.

Bæði hv. þm. Dala. (B. J.) og okkur flutningsmönnum brtt. ber saman um, að bæta þurfi kennaraskólann. Reyndar þótti mjer alleinkennilegt sumt það, er háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði um þann skóla, og jeg held, að honum sje ekki fullkunnugt, hvað þar er kent. Það vakti fyrir honum, sem rjett er, að þar ætti aðallega að kenna uppeldisfræði og sálarfræði, en honum virtist ekki ljóst, að þetta eru höfuðnámsgreinarnar. Jeg er honum (B. J.) sammála um, að rjett væri, að þeir einir, er fengið hafa gagnfræðapróf, nái inngöngu í kennaraskólann, svo að þeir væru betur undirbúnir en þeir eru nú.

Hvað námsgreinarnar í skólunum snertir, erum við nokkuð á sama máli, en þó þótti mjer hann binda sig fullmikið við þjóðleg fræði. Slík mentun er holl og góð, og auðvitað undirstaðan, en vjer verðum að vita meira en um okkur sjálfa.

Hv. flutnm. (B. J.) talaði um launakjör kennara. Um það ætla jeg ekki að fjölyrða, því að öllum er ljóst, hvernig þau eru. En jeg geng út frá því, að um leið og bætt eru kjör kennara verði þeim fækkað, því að jeg álít þá ofmarga. Jeg álít, að sú breyting verði að eiga sjer stað, að öll fræðsluhjeruð sjeu lögð niður og gerð að skólahjeruðum. Í sveitum komi heimavistarskólar í stað heimangönguskóla, og skólavist verði ekki eins löng á ári og áður. Mjer hefir dottið í hug, að í hverju sveitaskólahjeraði mætti hafa 60—70 börn og einn kennara við hvern skóla. Hver skóli starfi í 9 mánuði, og börnunum sje skift í 3 deildir, eftir þroska og námsþrótti, og hver deild sje 3 mánuði í skólanum.

Sem sagt vildi jeg ekki ráðast í stórar breytingar í þessu máli, er röskuðu grundvelli laganna, nema eftir ítarlega rannsókn. Í smærri atriðum mætti breyta; t. d. mætti breyta launakjörum kennara o. s. frv. Ef þeim verður ekki breytt, er jeg sannfærður um, að flestir þeirra, er hingað til hafa fengist við alþýðufræðslu í landinu, myndu hverfa frá henni, að minsta kosti allir þeir menn, sem svo eru hæfir að lifa lífinu, að þeir geti haft ofan af fyrir sjer á annan hátt, svo framarlega sem þeir geta ekki haft lífsuppeldi sitt af sinni þörfu og þýðingarmiklu stöðu.

Þá var komin fram rökstudd dagskrá, svo hljóðandi:

Í því trausti, að landsstjórnin rannsaki, hversu alþýðufræðslunni verði best hagað, svo sem:

1. Á hvaða aldri muni hentugast að hafa skólaskyldu.

2. Á hvern hátt mætti byggja sem mest á heimilisfræðslu, og ganga þó jafnframt svo frá eftirliti með henni, að tryggilegt væri.

3. Að vandlega sje gætt þeirrar stefnu að tryggja öllum börnum jafnan rjett til fræðslu, hvað sem um efni er og ástæður.

4. Hversu breyta mætti kennaraskólanum, svo að kennarar verði sem best búnir undir starf sitt.

5. Að kennurum sjeu trygð sæmileg æfikjör.

6. Hversu best yrði komið fyrir unglingafræðslu í landinu, að fjölgað sje unglingaskólum og komið á þá föstu skipulagi, í samræmi við barnafræðsluna, og við æðri skólana eftir föngum,

og að hún undirbúi og leggi þegar fyrir næsta reglulegt þing frumvarp til laga um bráðabirgðabætur á launum og ráðningarkjörum kennara, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Jón Jónsson. Þórarinn Jónsson.