27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um það, hve auðvelt það yrði að framkvæma þessa þingsályktunartillögu, ef þingið samþykkir hana; en misskiftar munu þó skoðanir um það, hversu rjettlát og hagkvæm hún muni reynast, ef henni ætti að fylgja út í ystu æsar.

Jeg vildi annars mega beina þeirri ósk til hv. flutnm. (Þór. J.), hvort eigi mundi mega fresta umræðum um till. þessa og fá hana bjargráðanefndinni til athugunar. Þetta mál er svo stórt, að þörf er á, að það sje skoðað gaumgæfilega, og enn nægur tími til að leiða það til lykta, þótt nefnd athugi það, þar sem hjer er að eins um þingsályktun að ræða, en ekki lagafrv.