27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Matthías Ólafsson:

Þegar jeg á síðasta þingi flutti till. til þingsályktunar, sem var næstum alveg eins orðuð og sú, er hjer liggur fyrir, þá gerði jeg það af því, að jeg álít það fullkomna rjettlætiskröfu, að allir landsmenn fái vöruna með sama verði. Jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að því verði fylgt nú; það gátu að vísu verið nokkrir erfiðleikar á því, meðan stjórnin var að sjá, hve mikið af vöru myndi fara út um land og hve mikið myndi þurfa að leggja á fyrir flutningsgjaldi. En nú, þegar stjórnin veit, hve mikið þarf á hvern stað, er þetta ekki annað en einfalt reikningsdæmi, þegar leggja á kostnaðinn á alla vöruna í heild sinni. Það hefir altaf verið mín skoðun, að menn ættu að geta keypt í hverri sveit og hverju kauptúni vöruna fyrir sama verð og hjer í Reykjavík. Jeg get ekki sjeð, hvaða annmarki ætti að vera á því, enda veit jeg, að t. d. steinolíufjelagið hefir altaf selt steinolíuna með sama verði alstaðar, og er það þá vitanlegt, að það hefir lagt sem því svaraði meira á hana hjer í Reykjavík.

Úr því að jeg er staðinn upp, vil jeg leyfa mjer að spyrja háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), hvað hann hafi meint, er hann talaði um, að stjórnin yrði að velja nýta menn fyrir landssjóðsverslunina. Jeg verð að halda því fram, að stjórnin hafi verið mjög heppin með menn fyrir verslunina. Hitt er annað mál, hvernig fyrirkomulagið hafi verið, en mennirnir hafa verið fullsæmilegir. Jeg hefi ekki fyr heyrt neinn efast um það, að þeir hefðu dugnað og verslunarþekkingu til að bera. Hvað launin snertir, að þau sjeu ofhá, þá verð jeg að segja það, að það er ekki hægt að bjóða mönnum minni laun við slíkt starf sem þetta en menn alment geta grætt sjálfir á verslun. Ef staðan er betur borguð en opinberar stöður yfirleitt, þá er því til að svara, að það tekur enginn að sjer slíka stöðu yfir stuttan tíma nema hún sje vel borguð, og það því síður, ef menn eiga von á álasi, bæði fyrir það, sem er þeim að kenna, og líka fyrir það, sem er þeim ekki að kenna.