11.09.1917
Neðri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Magnús Pjetursson:

Það munu ekki þýða mjög langar umr. um till. þessa hjeðan af; um hana hefir þegar svo margt verið talað, og hv. þingdm. munu þegar hafa ráðið með sjer, hvernig þeir greiði atkv. En af því að jeg hefi ekki enn horfið frá því, að till. þessi sje rjettmæt, þá ætla jeg að segja fáein orð henni til meðmæla og til andmæla því, er hv. frsm. (E. A.) bar fram. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir að vísu þegar borið fram hinar almennu ástæður gegn skoðun háttv. bjargráðanefndar, svo að mitt hlutverk verður aðallega að árjetta það, sem hann sagði.

Mjer þykir það undarlegt, hve mikla áherslu hv. nefnd leggur á kaupmannaverðið; sjerstaklega finst mjer það undarlegt, að hún skuli ætla, að sú ráðstöfun, sem till. fer fram á, mundi verða til þess, að kaupmenn og kaupfjelög mundu minka aðflutninga eða jafnvel hætta við þá. Nefndin virðist líta svo á, að verðlækkunin verði svo mikil úti um landið, ef jafnt flutningsgjald er lagt á alla vöruna, að hún muni lama svo þrótt kaupmanna og kaupfjelaga, að þau treysti sjer ekki til að halda áfram verslun. Þetta er fjarstæða. Kaupmenn munu hingað til oft hafa hækkað vöruverð, til þess að fylgja verði landsstjórnarinnar, án þess þó að brýn nauðsyn hafi knúð þá til þess. Það fyrirkomulag, sem hingað til hefir verið haft, hefir því verið kaupmönnum mjög í hag. Vörur landsstjórnarinnar eru nú töluvert dýrari úti um land en hjer í Reykjavík, og vilji kaupmenn þar fylgja verði hennar, þá geta þeir hækkað vöruverð sitt þeim mun meir, því meira flutningsgjald sem fellur á landsstjórnarvörurnar út um landið. Það er ekki hægt að segja með vissu, hve mikill þessi flutningskostnaður mundi verða; jeg hefi ekki í höndum skilríki fyrir því. En þegar reikningur landsverslunarinnar var yfirfarinn 1915, þá komst nefnd sú, er að því vann, að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að jafna flutningskostnaðinum niður á alla vöruna, og taldi hún hann mundu vera 1—2% af verði vörunnar. Nú er það vitanlegt, að alt flutningsgjald hefir stórum hækkað síðan. Setjum að það hafi þrefaldast. Ætti það þá að vera upp að 6% af vöruverðinu nú, og mun það þó vera ríflega í lagt, þegar þess er gætt, hvað vöruverð hefir hækkað síðan 1915. Þetta er ekki svo mikið, að það geti náð nokkurri átt, að það dragi þrótt úr kaupmönnum og kaupfjelögum til að birgja landið upp. Það er að vísu auðsjeð, að þetta er óhagnaður fyrir Reykjavíkurbúa, miðað við það, sem nú er; því er það skiljanlegt, að þeir, sem þeirra máli tala, fylgi nefndinni að málum. En þótt margir sjeu íbúar Reykjavíkur, þá eru þeir þó ekki nema sjötti hluti landsmanna, og ekki rjett eða sanngjarnt, að allir hinir borgi óbeinlínis nokkurn hluta af vöruverði Reykvíkinga. Því mundi vera viðbrugðið um kaupmann, sem ræki verslun á ýmsum stöðum, ef hann seldi vöruna sínu verðinu á hverjum staðnum. Og jeg hygg, að það verði ekki auðgert að sannfæra menn úti um landið um að landsstjórnin sje annað en kaupmaður, að því leyti sem hún rekur landsverslun, og menn munu eiga erfitt með að skilja, hvaða nauður knýi hana til að fylgja öðrum reglum með söluverð á hinum ýmsu sölustöðum sínum en kaupmenn gera.

Það hefir verið talað um, að ekki kæmist á verðjöfnuður með því fyrirkomulagi, sem till. fer fram á, með því að vörur þeirra, sem langt búa frá kauptúnum, verði dýrari heim komnar en þeirra, sem í kauptúnum búa. Satt er þetta; en svo hefir það altaf verið, og víst ekki hægt að ráða bót á því; þar yrði þá svo ótal margt annað, sem kippa yrði í lag um leið.

Þá hefir verið talað um, að erfiðara væri fyrir landsstjórnina að koma á sama vöruverðinu á sínum sölustöðum en kaupmenn á sínum, því að þeir viti löngu fyrir, hve mikið þeir muni þurfa að flytja á hvern stað. Það er nokkuð til í þessu. En töluvert getur stjórnin þó bætt úr fyrir sjer með því að láta sveitarstjórnirnar panta vörur fyrir alllangan tíma og með töluverðum fyrirvara; þá ætti hún að geta staðið svipað að vígi og kaupmenn, sem senda vörur til ýmsra staða; hún ætti þá nokkurn veginn að geta vitað, hve mikið hún mundi þurfa að senda á hvern stað, og gæti þá hagað sendingu og verði á líkan hátt og kaupmenn.

Annars þykir mjer það undarlegt, hve mikið háttv. nefnd leggur upp úr því, sem kaupmenn hjer í Reykjavík muni græða, ef að því verður snúist að selja landssjóðsvöruna alstaðar jafndýrt. Jeg geri ráð fyrir, að landsvörurnar sjeu seldar nú með stórkaupaverði, að viðbættum kostnaði, en að kaupmenn selji sína vöru með smákaupaverði; þá hlýtur munurinn á þessu tvennu, með svipaðri ráðdeild, að verða ekki minni en sem svarar því, er varan hækkar í verði hjer í Reykjavík við það, að flutningsgjaldi á alla staði í landinu er jafnað á hana alla; það sýndist miklu sennilegra, að hann ætti að verða meiri.

Hvernig sem jeg virði málið fyrir mjer, get jeg ekki fundið, að ástæða sje til að hvika frá hinni upprunalegu þingsályktunartillögu, og er jeg því hissa á, að sumir af flutningsmönnum hennar skuli hafa borið fram brtt. við hana. Mjer finst ekkert það koma fram í nefndarálitinu, sem gefi tilefni til hennar, og auk þess liggja öll hin sömu rök, frá sjónarmiði nefndarinnar, móti henni, eins og sjálfri aðaltillögunni.

Jeg þykist reyndar vita, að tillögumenn hafi borið fram brtt. þessa í því skyni að gera menn í Reykjavík ánægðari og til að sýna, að þeir vildu taka bróðurskerfinn upp á sig; en hætt er við, að hún verði ekki með jafnmiklum þökkum tekin eins og hún mun af góðum og sáttfúsum hug borin fram. Þessi rökstudda dagskrá háttv. nefndar er allsendis óþörf, og má alt eins vel fella tillöguna eins og samþykkja hana, því að það er ekki ástæða til þess að ætla, að dagskráin beri mikinn árangur, þótt hún verði samþykt, þar sem vjer vitum, að í vetur var tekin aftur samskonar þingsályktunartillaga og þessi, með sömu ummælum sem í dagskránni felast, en stjórnin hefir haft þau að engu, nema ef vera skyldi að því er snerti 1—2 sendingar í vetur.

Jeg held, að það sje ekki rjett hjá háttv. frsm. (E. A.), að óánægja með einstaka eða einstakar sendingar hafi hrundið tillögu þessari af stað, heldur er það almenn óánægja með vörusendingar stjórnarinnar, óánægja með það, að allar vörurnar hafa fyrst verið látnar koma hingað til Reykjavíkur og sendar síðan með ærnum kostnaði fyrir móttakendur út um land.

Mjer þykir vænt um að heyra hjá hæstv. atvinnumálaráðherra, að stjórnin ætlar dálítið að fara að bæta sig og taka úr einstakar vörur og selja þær sama verði alstaðar. Þetta sýnir, að sjálf landsstjórnin álítur það ekki óframkvæmanlegt, sem tillagan fer fram á, því að hjer er ekki um vörur að ræða, sem landsstjórnin hefir ein í höndum, nema ef vera skyldi sykur.

Eftir því, sem hæstv. stjórn verður kunnugri öllum þessum verslunarmálum og fær betri upplýsingar um þau, eftir því á hún hægra með að reikna út, hvar þörf er fyrir að fá vörur og hve miklar, svo að það verður á allan mögulegan hátt hægra og betra fyrir hana að hagtæra vöruna sem best og láta sum skipin koma að Austurlandinu, sum að Norðurlandinu og önnur að Vesturlandinu, og getur þá alt gengið betur en að undanförnu. Jeg skil ekki heldur, að þótt vörur landssjóðs yrðu dýrari en vörur kaupmanna, sem mjer finst reyndar óhugsandi, að það sakaði mjög mikið, því að vitanlega hefir landsverslunin aldrei átt að vera keppinautur kaupmanna, heldur hefir hún átt að birgja landið upp að forða, sem hægt væri að grípa til, þegar annað þryti. Jeg get svo ekki verið að tefja tímann meir með umræðum um þetta mál.