11.09.1917
Neðri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Matthías Ólafsson:

Ef við flutningsmenn tillögunnar gætum fallist á röksemdir háttv. nefndar, þá hefðum við aldrei farið að koma með þessa till., því að þessar röksemdir eru nákvæmlega þær sömu, sem mættu till. minni á síðasta þingi, sem jeg tók aftur, af því að stjórnin lofaði þá að taka tillit til þess, sem fram hafði komið í umræðunum.

Það er öllum kunnugt, að kaupmenn úti um land skifta víðs vegar við stór svæði og hafa skip til flutninga út til allra skækla sveitanna. Þeir leggja þá ávalt á alla vöruna í heild sinni, en selja hana ekki dýrara úti á skæklunum, því að það liggur í hlutarins eðli, að það ætti ekki að vera ofvaxið neinum verslunarstjóra að vita, hvað til þessa þarf að leggja mikið á alla vöruna, og þá ætti það ekki heldur að vera ofvaxið landssjóðsversluninni. Að vísu er það ekki eins hægt að vita, hvað hver sveit þarf mikið, eins og fyrir gamlan og reyndan kaupmann, sem í mörg ár hefir birgt hjeraðið upp að vörum. Nú er það alkunna, að kaupmenn úti um land kaupa vörur sínar hjer hjá stórkaupmönnum og verða svo að leggja á þær fragt, en ef landsstjórnin flytti vörurnar á margar hafnir þegar í stað, án þess að fara með hana fyrst hingað til Reykjavíkur, þá yrðu stórkaupmenn að setja vörur sínar niður, til þess að halda þeim í sama verði úti um land og landssjóðsvörunni. Nú er það enn fremur á hvers manns vitorði, að stórkaupmenn taka meira fyrir vörur sínar en góðu hófi gegnir, vegna þess, að þeir miða við það verð, sem er á landssjóðsvörunum. Hvers vegna landssjóðsvaran er ekki ódýrari skal jeg ekkert um segja. Jeg veit, að stjórnin getur ekki vitað upp á hár, hve mikið hún þarf að leggja á vöruna, því að enn er alt skipulagið á reiki, en kaupmenn aftur á móti vita, hvað skipin kosta, og geta því vitað fyrirfram, hve mikið þeir eiga að leggja á vörur sínar. Það myndi borga sig að flytja vörurnar á hraðskreiðum seglskipum, því að þá væri hægt að vita flutningskostnaðinn fyrir. Það var firra hjá háttv. frsm. (E. A.), að flutnm. tillögunnar ætluðust til, að vörurnar yrðu fluttar að kostnaðarlausu kaupandanum upp í sveit. (E. A.: Jeg sagði það aldrei.) Það hefir aldrei verið farið fram á annað en að þær yrðu fluttar á hafnirnar, án þess að leggja allan flutningskostnaðinn á þær. (E. A.: Þetta eru tinsoldátar, sem þm. er að skjóta á.) Hæstv. atvinnumálaráðherra sagði, að nú væri hægt að fara að óskum manna meir en áður í þessu efni, því að nú ætti landið sjálft skipin og gæti því vitað, hve mikill flutningskostnaðurinn yrði, og er þá horfin sú ástæða, sem menn hafa haft á móti tillögunni. Það hefir líka verið mikið um það talað, að ef flutningsgjaldið yrði lagt á alla vöruna, gætu stórkaupmenn hjer í Reykjavík hækkað sínar vörur, en háttv. þm. Stranda. (M. P.) hefir þegar bent á það, að ótrúlegt væri, að flutningsgjald gæti munað meiru en sem svaraði mismuninum á milli stórsöluverðs og smásöluverðs, og það er áreiðanlegt, að enginn getur selt í smásölu með minna álagi en sem svarar flutningsgjaldinu.

Það er ekki annað en sjálfsögð rjettlætiskrafa, að landssjóðsvaran verði seld alstaðar með sama verði, en það er að vísu dálítið dýrt að fullnægja þessu rjettlæti. Verslunin er rekin fyrir fje allra landsmanna, en ekki Reykvíkinga einna. Það er alveg sjálfsagt að skipa vörunum upp víðar en hjer, nema því að eins, að það verði ódýrara að skipa þeim fyrst upp hjer og senda þær síðan út um landið. Það er að eins að einu leyti óhaganlegt að skipa vörunum upp á fleiri hafnir, og það er ef það skyldi vera dýrara en að senda hana hjeðan frá Reykjavík. Kaupmenn, sem hafa mörg útibú, leggja vörur sínar því að eins upp á eina höfn, að ódýrara sje að senda þær þaðan, en annars senda þeir þær beint til allra útibúanna.

Jeg get ekki sjeð, að rjettara sje að samþykkja dagskrána heldur en till. okkar, og það því fremur sem við erum búnir að draga úr henni til samkomulags.