11.09.1917
Neðri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Mjer finst það nú liggja í lofti, að margir af tillögumönnum sjeu farnir að hverfa frá aðaltillögunni, enda er hún ekki aðgengileg. Eftir henni yrði stjórnin að telja upp allar hafnir á landinu og senda á þær allar vörur, án sjerstaks endurgjalds. Að vísu hefir nú hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) skýrt till. svo, að hún eigi við þær hafnir, sem strandferðaskipin koma á. Nefndin gat ekki vitað um, að þann skilning ætti að leggja í till., og þar sem hann hefir ekki komið í ljós hjá neinum af samtillögumönnum hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), þá er þessi skýring ekki mikils virði fyrir stjórnina. En þó að þeim skilningi væri fylgt, þá er till. ranglát fyrir því. Ýmsir aðrir staðir hafa jafnmikinn rjett á að njóta sömu hlunninda. Má nefna til þess Eyrarbakka, Stokkseyri, Vík í Mýrdal, Hornafjörð, Búðardal og ýmsa aðra staði. Hvers vegna eiga þeir að vera ver settir? Þetta er því alt saman hálfverk. Sumum er ívilnað, en aðrir verða út undan. Þegar stjórnin nú er búin að gefa yfirlýsingu um það, að sumar vörutegundir muni verða seldar sama verði um land alt, þá ættu tillögumenn að geta látið sjer nægja að halda sjer við dagskrána. En ef tillagan önnurhvor verður samþ. og stjórnin sjer sjer ekki fært að framkvæma, hvað þá? (M. P.:

Hvað þá?) Já, hvað þá? Það er ekki mitt að svara því, heldur stjórnarinnar.

Enn er ýmislegt smávegis, sem ekki hefir verið svarað. Háttv. tillögumenn vilja ekki fallast á það, að það skifti nokkru verulegu máli, þótt landssjóðsvörurnar verði dýrari í heildsölu en vörur heildsalanna. En þetta er hreinasti misskilningur. Vel getur komið fyrir, að sami kaupmaður verði að kaupa tvö »partí« af sömu vöru, annað hjá landssjóði, en hitt hjá heildsala. Fyrir heildsalavöruna gefur hann t. d. 100 kr., en fyrir jafnmikið af landssjóðsvöru 105 kr. Halda menn þá, að hann fari að selja þessa vöru með tvennu verðlagi? Nei, hann leggur auðvitað sama verð á alla vöruna og fer það sem hann kemst. Að sjálfsögðu verður það hærra innkaupsverðið, sem ræður smásöluverðinu. Auk þess er ágóðinn altaf lagður á innkaupsverðið, sem altaf hleður utan á sig, eins og snjókúlan, því meiru sem það er hærra.

Hitt atriðið, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) mintist á, að kaupmenn, sem versla á fleirum en einum stað, geti jafnað verðinu, er ekki berandi saman við þetta. Það er allur munur, þegar þeir geta svo að segja reiknað út upp á hár, hve þeir þurfa að láta flytja mikið af vörum á hvern ákveðinn stað. En landssjóður getur ekkert um það vitað fyrir víst, hvorki, hve mikið af hverjum farmi þurfi að flytja í burt, nje heldur, á hvaða hafnir eigi að flytja það. Hjer er því svo ólík aðstaða, sem frekast getur verið. Svo eru kaupmenn ekki heldur að leigja skip til flutninga á óhentugasta tíma. (M. Ó.: Það gerir landsstjórnin vonandi ekki heldur). Nei, hún gerir sjer væntanlega ekki leik að því, en hana ber skylda til að birgja upp landið, hve nær sem þörfin kallar að, og getur því illa sætt lagi. Ef hungur bæri að höndum í einhverjum landshluta, þá mundi stjórninni legið á hálsi, ef hún reyndi ekki að ráða bót á því strax, í stað þess að bíða eftir því, að erfiðleikarnir minkuðu. Kaupmaðurinn aftur á móti getur þá beðið betra tækifæris, ef tvísýnt er um, að það borgi sig að afla nauðsynjanna í svipinn.

Þá er það þessi jarmur um, að það sje gert fyrir Reykjavík og umhverfi hennar að halda fyrirkomulaginu, sem nú er. Þessi jarmur er alveg rakalaus. Reykvíkingar mundu hafa einhver ráð með að fá sjerataka farma hingað; þeir eru ekki svo dauðir úr öllum æðum.

Svo er enn eitt atriði, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) mintist á. Hann hjelt því fram, að jeg hefði sagt, að menn í sveitum ættu þá eins að fá ívilnun í flutningi á vörunum heim til sín. Jeg hefi nú ekki sagt þetta. En hvers vegna ættu þeir ekki eins að fá það? Mælir nokkur sanngirni með því, að maður, sem býr á Eyrarbakka, fái ívilnun á flutningi vörunnar heim til sín, en maður, sem býr austur undir Eyjafjöllum, og getur ekki flutt vöruna á sjó, verður að fara á mis við þessa ívilnun?

Jeg held, sem sagt, að brtt. sýni, að flutningsmenn aðaltillögunnar sjeu farnir að finna dálitla veilu í henni. Enn fremur ber skýring háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) vott um hið sama. Annars er þýðingarlaust að tala meira um þetta mál. Háttv. deild verður að vera sjálfráð um það, hvað hún gerir. Fylgismenn stjórnarinnar verða að ráða því sjálfir, hvort þeir vilja skipa henni það, sem stjórnin sjálf telur sjer ómögulegt að framkvæma. Og jeg tel það fullljóst, að ómögulegt sje að framkvæma þessa tillögu.