14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2218 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Atvinnumálaráðherra (S J.):

Háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir sjáanlega fylgst vel með því, sem gert hefir verið í þessu máli. Rakti hann sögu þess á þinginu og fór þar alveg rjett með, eftir því sem jeg tók best eftir.

Talsverður skoðanamunur var um málið í háttv. Nd., og er svo að sjá, sem hann sje einnig hjer, þó að enn hafi ekki margir látið til sín heyra. Finst mjer báðir málsaðiljar hafa nokkuð til síns máls, en ekki blandast mjer hugur um, að till. á þgskj. 898, borin saman við brtt., er að mun óaðgengilegri, og eru þó báðar gallagripir. Brtt. fer meðalveg í málinu. Eftir aðaltill. er ætlast til, að landsstjórnin selji vörur sínar með sama verði í öllum kaupstöðum og kauptúnum á landinu. Skilst mjer þá, eftir þeirri till., að stjórnin sje skyldug til þess að láta skip sín koma við í öllum kauptúnum, hversu lítil sem þau kunna að vera. En í brtt. er ætlast til, að vörurnar verði seldar með sama verði í öllum kaupstöðum landsins og auk þess í einu eða tveimur kauptúnum í hverri sýslu. Jeg hefi áður minst á það, að ef landssjóður heldur áfram að hafa skip í förum milli Bandaríkjanna í Ameríku og Íslands, þá megi ef til vill haga svo til, að þau geti lagt upp nokkurn forða á ýmsum stöðum öðrum en Reykjavík, enda var svo gert í upphafi, þó að ekki hafi það getað verið föst regla, þar sem mesta áherslu varð að leggja á aðdrætti til landsins, meðan fá skip voru til umráða.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) mintist á það, að ekki væri ætlast til þess, að landssjóður græddi á versluninni. Nokkuð eru nú misjafnar raddir um það mál. Sumir tala um að leggja fje í varasjóð, til þess að tryggja verslunina, eins og allir hyggnir verslunarmenn gera. Og ef það er gert, þá verður ekki annað sagt en að tekinn sje gróði af versluninni. Enda virðist vera rjett að vera við því búinn, að vörur lækki mjög í verði, þótt ekki sje ætlast til, að varasjóður hrökkvi á móti verðfallinu á vöruleifunum. Það geta vitanlega verið skiftar skoðanir um, hversu mikla áherslu eigi að leggja á varasjóðinn, en út í það mál ætla jeg ekki að fara að sinni.

Eins og jeg tók fram áðan þá tel jeg brtt. á þgskj. 941 aðgengilegri en till. á þgskj. 898. Þó er ein setning í brtt., sem mjer virðist vera nokkuð óljóst orðuð, sem sje þar sem sagt er, að selja skuli með »sama verði í öllum kaupstöðum landsins og eftir pöntun að minsta kosti í einu eða tveimur aðalkauptúnum hverrar sýslu«. Mjer væri kærkomið, ef hv. þm. Ak. (M. K.) vildi skýra þetta orðalag »eftir pöntun« nokkru nánara. Fari svo, að brtt. verði feld, þá er ekki sagt, að jeg geti fallist á aðaltillöguna. Og jeg vildi ekki, að menn feldu brtt. í þeim tilgangi að samþykkja aðaltillöguna. En fari svo, að báðar tillögurnar verði feldar, þá eru einungis lögin frá í vetur eftir, sem ýmsum þykir stjórnin hafa farið oflítið eftir. Hún þorði ekki að leggja eins ríkan skilning í orðið »ívilnun«, eins og sumir háttv. þingmenn hafa óskað. En sannleikurinn er sá, að það hefir aldrei verið um yfirlýstan þingvilja að ræða í þessu máli, fyr en nú, ef þessi tillaga nær nú fram að ganga. Og færi svo, þá er ekki um ívilnun að ræða, heldur beinlínis fyrirsögn, sem ætlast er til að farið verði eftir í lengstu lög.

En yfirleitt hefir það verið tilgangur landsstjórnarinnar að reyna að selja vörur sínar með sem jöfnustu verði. Svo hefir t. d. verið að miklu leyti um salt, kol og sykur. Jeg get því ekki sjeð, að um neina verulega hættu sje að ræða, þó að hvorug tillagan næði fram að ganga.