14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Forseti:

Áður en frekari umræður verða um málið vil jeg leyfa mjer að geta þess, að jeg hefi hugsað mjer að bera fyrst upp aðaltillöguna á þgskj. 898, en falli hún, verður brtt. nefndarinnar borin upp. Það er hvergi fyrirskipað í þingsköpunum, að bera skuli upp brtt. á undan aðaltillögunni, enda þótt það hafi verið venja. Og mjer er kunnugt um það, að á mörgum löggjafarþingum er fyrst borið upp, hvort menn vilji ganga að aðaltill. óbreyttri. Jeg hygg, að ekki þurfi að leita afbrigða frá þingsköpunum, þótt till. sjeu bornar upp í þeirri röð, sem eðlilegast er samkvæmt efni þeirra, þannig, að hin djúptækari tillagan sje borin fyrst undir atkvæði.