14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Magnús Kristjánsson:

Jeg býst við, að ekki sje hægt að hafa áhrif á úrskurð hæstv. forseta í þessu efni, en jeg hygg þó varhugavert að bera aðaltillöguna fyrst upp. Ef menn mættu eiga það víst, að brtt. yrði samþykt, myndu þeir greiða atkv. gegn aðaltill. En þar sem engin vissa er fyrir því, er eðlilegast, að menn óski, að brtt. sje borin fyrst upp. Svo gæti farið hjer, sem fór í háttv. Nd., að miðlunartill. yrði feld. Þetta er því að setja þingmenn í vanda, og vænti jeg þess, að hæstv. forseti taki þessar athugasemdir mínar til greina.

Jeg þarf ekki neinu að svara ræðu hæstvirts atvinnumálaráðherra. Mjer virtist hann taka liðlega í málið og bæði skilja og viðurkenna, að þessi deild sje að gera nauðsynlega samkomulagstilraun.

Jeg geri ráð fyrir því, að verði brtt. feld, þá muni jeg greiða aðaltill. atkv. mitt. En mjer finst hún ganga nokkuð langt, og er mjer því nær skapi, að brtt. verði samþykt.

Hæstv. atvinnumálaráðherra beiddist skýringar á orðinu »pöntun« í brtt. Í því orði liggur það, að gert er ráð fyrir, að landsstjórnin láti millilandaskipin koma við í kaupstöðunum og leggja þar upp vöruforða, án þess að menn þyrftu að hafa pantað hann, en hana beri engin skylda að leggja upp vörur í kauptúnum, öðruvísi en eftir pöntun, og flytji hún vörurnar þangað á þann hátt, sem hún telur haganlegast. Hún sje ekki skyld að leggja þar upp vörur til geymslu. Vona jeg, að þessi skýring sje nægileg. (Atvinnumálaráðherra: Já, hún nægir).

Jeg vil leyfa mjer að spyrja háttv. 1. þm. Rang. (E. P..), hvort hann ætlar sjer að greiða atkvæði gegn brtt., ef aðaltill. fellur. (E. P.: Já).

Háttv. þm. ljet það í ljós, að í brtt. væri ekki gert ráð fyrir því, að vörurnar yrðu lagðar upp í kaupstöðunum úr millilandaskipunum. Jeg verð nú að álíta, að þetta felist beint í brtt. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

»AIþingi ályktar að skora á landsstjórnina að selja vörur landsverslunarinnar sama verði í öllum kaupstöðum landsins og eftir pöntun að að minsta kosti í einu eða tveimur aðalkauptúnum hverrar sýslu«.

Það liggur beint í orðalagi brtt, að sama aðferðin skuli höfð til að birgja upp alla kaupstaðina, sem sje að leggja þar upp vörur úr millilandaskipunum. En ekki á þetta við kauptúnin. Brtt. var beinlínis orðuð svo með þetta fyrir augum. Er því þessi aðfinning háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) á engum rökum bygð.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða meir um málið, enda býst jeg við því, að frekari umræður muni að eins snúast um atkvæðagreiðsluaðferðina.