15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á hjer eina brtt. á þgskj. 444, sem jeg kem með til þess að færa upp styrkinn til Flensborgarskólans, úr 1000 kr. í 2000 kr. Á þessari tillögu stendur svo, að hagur skólans er nú ekki góður, og er þó alt sparað sem allra mest er mögulegt. Sjerstaklega verður að álíta það meinlegt, að skólastjórinn skuli ekki vera betur launaður en hann er. Það er alkunna, að það er mjög mikilhæfur maður, og ætti því að sýna honum sóma, svo að hann gæti stundað starf sitt með alúð. Jeg veit reyndar, að hann gerir það svo sem honum er mögulegt, en því síður er rjettlátt að sýna honum ekki einhverja viðurkenningu fyrir vel unnið starf. Jeg býst nú samt við, að þótt till. mín yrði samþykt, þá mundi það fje ekki renna til skólastjórans, en því fyr sem hagur skólans er bættur, því fyr verður mögulegt að launa hann sæmilega, og það skal jeg taka fram að lokum, að jeg álít, að landinu beri að taka skólann algerlega að sjer.