15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Gísli Sveinsson:

Skýring háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir ekki verið ófyrirsynju, og spurningin þá naumast heldur. Við fljótt álit hjelt jeg, að meiningin með þessu orðalagi væri sú, að menn yrðu að »panta« að fá að sæta þessu verði. Nú hefir háttv. þm. (M. K.) upplýst, að svo er ekki, heldur er hjer um pöntun vörunnar að ræða. Liggur þá beint við að ætla, að landsstjórnin hafi hingað til verið að rekast um alt land með vörur sínar, þar sem enginn vildi hafa þær. Nú hefir svo jafnan verið, þar sem jeg hefi þekt til, að menn hafa pantað vörurnar, og geri jeg ráð fyrir, að svo verði einnig framvegis. Jeg held því, að segja hefði mátt, eins og var tilætlun háttv. Nd., að landsstjórnin skyldi selja vörur sínar sama verði alstaðar á hinum tilteknu stöðum kringum landið.

Eftir till. ber stjórninni enn fremur að hlíta þessum pöntunum, hvort sem þær eru stórar eða litlar, og hvaða skip sem það eru, sem vörurnar flytja. Þetta má svo vera. Hún verður því að áætla flutningskostnaðinn og jafna honum niður, eftir því sem hún hefir best vit til.