03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

180. mál, rannsókn símleiðar

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg skal ekki tefja tíma háttv. þingd. með langri ræðu.

Þessa till. ber jeg fram samkvæmt eindreginni ósk allra kjósenda í norðurhluta Norður-Ísafjarðarsýslu. Það er mönnum kunnugt, að þessi hluti landsins hefir í samgöngum verið mjög afskiftur. Því var það mönnum gleðiefni um þær slóðir, að lögin 1912 um talsíma- og ritsímakerfi tóku einnig upp símlagning um þessi hjeruð; þess vegna fóru menn að vonast eftir síma um þessar strjálbygðu sveitir. En menn hafa nú vonað og vonað árangurslaust. Þó er það ekki af því, að jeg ber fram þessa till., að þolinmæði manna sje að þrotum komin, því að ef til vill hefir eigi mátt við símanum búast, heldur af því, að mönnum hefir leiðst, að símleiðin skuli ekki vera rannsökuð, enda ágreiningur innan hjeraðs um það, hvar línan skuli lögð. Menn geta ekki búist við því, að síminn verði lagður á meðan svo stendur á, en menn vonast eftir því, að það muni ekki dragast lengi eftir að leiðin hefir verið rannsökuð.

Það má nú segja, að hjer sje um strjálbygðar sveitir að ræða, og því ekki mikilla tekna að vænta af símanum. Þetta sama má nú að vísu segja um ýms önnur hjeruð, sem síma hafa fengið. En þessir menn, sem búa í svo mikilli strjálbygð og dreifingu, eiga sanngirniskröfu til símans, enda hefir þingið viðurkent það, með því að taka símann inn í lögin.

Í þessu sambandi má og minna á eitt mikilsvert atriði, sem ekki eingöngu varðar þetta hjerað, heldur samgöngurnar alment. Það er kunnugt, að fiskveiðar landsmanna, einkum síldveiði, fer að miklu leyti fram á þessum slóðum á sumrum, og ef sími lægi þá að Höfn á Hornströndum, má segja, að sjómönnum væri síminn sama sem heima, með því að fiskleitir þar eru mönnum svo nálægar, og geta þeir þá haft greiðar og sannar fregnir af fiskgöngum annarsstaðar. Allir munu sjá, að þetta er mjög þýðingarmikið. Jeg er líka viss um það, að ef leitað væri álits skipstjóra um þetta, þá mundu þeir eindregið mæla með því, að sími yrði lagður þarna sem allra fyrst, enda á hjer í hlut sjávarútvegur alls landsins, og eitt símasamtal getur oltið á mörgum þúsundum króna fyrir sjávarútveginn. Þess vegna yrði þessi sími í rauninni þýðingarmeiri fyrir landið heldur en símar, sem liggja um miklu þjettbýlli hjeruð, og allir sjávarútvegsmenn mundu geta vænst mikils hagnaðar, ef þessi sími yrði lagður alla leið.

Þessi sími yrði og þýðingarmikill vegna ísa og veðurs. Það er oft svo, að skip leggja af stað frá Ísafirði án þess að vita, hvort þau geta komist fyrir Horn. Ef sími væri, gætu þau haft tök á að fá vitneskju um þetta, og að þessu leyti er þá þetta mál einnig mikilsvert fyrir skipagöngur umhverfis landið. Fyrir veðurfræðina hefir það einnig þýðingu að vita, hvernig ástatt er um veður á þessum slóðum.

Jeg skal enn fremur minna á eitt atriði, sem öllum er enn í fersku minni; jeg á við strand Goðafoss. Það má telja víst, að björgun mundi hafa getað farið fram ef sími hefði legið um þessar slóðir, því að þá mundi hafa náðst í Geir nógu tímanlega og hann hafa verið kominn á vettvang liðlega sólarhringi eftir að slysið varð, en einmitt á öðrum sólarhringi breyttist veðrið og gerði ótækt að bjarga. Þetta eru viðurkend sannindi. Þetta ætti að vera svo mikilvægt atriði, að engum ætti að blandast hugur um það, að með þessum síma má aftra mörgum skaða.

Vænti jeg þá, að stjórnin láti ekki fresta miklu lengur rannsókn þessari, og að síðan verði síminn lagður svo fljótt sem unt er.