03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

180. mál, rannsókn símleiðar

Bjarni Jónsson:

Jeg stend einungis upp til þess að styrkja málstað háttv. flm. (S. St.), svo sem jeg er allajafna vanur, þegar um málefni þessa landshluta er hjer að ræða. Mjer hefir jafnan verið það ljóst alla tíð síðan jeg las Landnámu, að þessi landshluti þyrfti mjög bættra samgöngutækja. En auk þess, sem nauðsyn hjeraðsbúa krefst þess, þá er það og nauðsyn alls landsins, eins og háttv. flm. (S. St.) tók fram, að vita þar um ís og veður. Hann mintist á sjávarútveginn í þessu sambandi. Hjer má og minna á það, að síldveiðastöð er hjá Horni og að búast má þar við fjölmennum veiðistöðum innan skamms. Og til enn meiri áherslu skal jeg minna menn á frv. um veðurathuganastöð í Reykjavík, sem nú liggur fyrir mentamálanefnd og nefndin mun mæla með. En komist það í framkvæmd, þá er lífsnauðsyn að hafa stöð á Horni og fá þaðan dagleg veðurskeyti; ella yrði lítt til gagns að reka hjer veðurathuganastöð í Reykjavík.