07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2241 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

184. mál, vegamál

Einar Arnórsson:

Það er óþarft að hafa kappræður um þetta mál.

Út af því, sem háttv. frsm. (Þorl. J.) sagði um álit vegamálastjórans um þetta mál á undanförnum árum, þá skal jeg geta þess, að Jón Þorláksson, sem þá var enn vegamálastjóri, lýsti yfir því á öllum þingmálafundum í Árnessýslu síðastliðið haust, að hann væri eindregið fylgjandi því, að viðhaldinu yrði ljett af sýslunni. Og munu mjer gagnast vitni að þessu. (Margir: Þá var Jón Þorláksson að afla sjer kjörfylgis við kosningarnar).

Þessi till. fer að eins fram á það, að stjórnin athugi málið, og ætti mönnum að vera meinalaust að leyfa það.

Eins og háttv. samþingismaður minn (S. S.) tók fram þá hvílir þessi viðhaldsskylda mjög þungt á sýslunum, og kemur það til af því, að enginn vegur á landinu, sem sýslur eiga að viðhalda, verður fyrir jafnmikilli notkun sem þessi og að erfitt er að fá ofaníburð á sumum stöðum.

Það sýnist eigi vera neitt til fyrirstöðu því, að till. sje samþykt nú, með því að samgöngumálanefnd getur lagt til að kippa henni burt aftur, ef henni líst svo, eftir að hún hefir tekið hana til athugunar.