15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Benedikt Sveinsson:

Samgöngumálanefndin hefir komið með brtt. við þetta frv., á þgskj. 448. En það hafði komist inn ritvilla í brtt. fjárveitinganefndar við 3. gr. 5. b. Þar stendur nú »Sauðárkróki« í stað þess, að þar á að standa Akureyri. Frsm. fjárveitinganefndar (B. J.) lýsti yfir því við síðustu umr. þessa máls, að þetta væri ritvilla, en hæstv. forseti neitaði samt að leiðrjetta það. Á þessari ritvillu stendur þannig, að það hafði komið til mála að veita sjerstakan styrk til vjelbátsferða milli Sauðárkróks og Akureyrar, og nefndin hefir nú átt í samningum við Þorstein Jónsson, kaupmann á Seyðisfirði, um að taka að sjer þær ferðir. Þessi maður hefir einnig tekið að sjer ferðirnar frá Akureyri og austur eftir, og þær ferðir eru þegar byrjaðar, en um þessar ferðir hefir þar á móti staðið í mesta stappi. Nefndinni þótti það nokkuð hátt að greiða fyrir þær 2000 kr. En sökum þess, að háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) er þetta mjög mikið áhugamál, og auk þess játar nefndin, að nokkur þörf muni að greiða fyrir samgöngum, einkum við Haganesvík, Hofsós og Kolkuós, þá gekk hún að því að lokum að greiða þessa upphæð. Það er gert ráð fyrir því, að í sumar verði farnar 3—4 ferðir. Hjer liggur fyrir brtt. á þgskj. 435, frá háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), um að hækka styrkinn til ferðanna milli Akureyrar og Seyðisfjarðar um 2000 kr., eða úr 8 upp í 10 þús. kr., og láta jafnframt standa óbreytta ritvilluna »Sauðárkróks« fyrir Akureyrar. En þetta er röng aðferð. Um ferðirnar milli Akureyrar og Seyðisfjarðar er þegar samið að fullu, og á því verður engin breyting ger. Ef deildin vill veita fje til Sauðárkróksferðanna, þá er það eitt rjett að samþykkja till. samgöngumálanefndarinnar, leiðrjetta ritvilluna og veita síðan sjerstaka fjárhæð til þessara ferða.

Jeg vona, að hann taki þessa till. sína aftur, því að nú hefir hann haft fram allar sínar kröfur um samgöngur á Skagafirði, og þarf ekki að fleyta þeim á ritvillunni, sem slæddist af misskilningi inn í handrit frv. hjá háttv. ritara fjárveitinganefndarinnar.