15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Magnús Guðmundsson:

Jeg er þakklátur háttv. samgöngumálanefnd fyrir það, að hún vill taka óskir Skagfirðinga um auknar samgöngur til greina. En mig greinir á við hana um það, að jeg vil ekki skifta ferðunum í tvent, ekki veita 8000 kr. til ferða milli Seyðisfjarðar og Siglufjarðar og svo aftur 2000 kr. til ferða milli Akureyrar og Sauðárkróks, heldur vil jeg láta endastöðvarnar vera Seyðisfjörð og Sauðárkrók. Við þessa tilhögun álít jeg sparast, því að báturinn þarf ekki að fara nema frá Siglufirði og til Sauðárkróks, í stað þess, að annars þarf hann ætíð að koma alla leið frá Akureyri. Jeg hefi nú fengið fulla vissu fyrir því, að Þorsteinn kaupmaður Jónsson á Seyðisfirði gengur fúslega að þessu, en verði þessu ekki hagað þannig, þá er engin vissa fyrir, að báturinn komi nokkurn tíma til Skagafjarðar, því að maðurinn vildi ekki ganga að samningunum nema því að eins, að báturinn mætti fara beina leið frá Siglufirði, í stað Akureyri. En hugsi Þorsteinn til að fá sjerstakan bát til þessara ferða, þá er alt enn óvíst um, hvernig þeir útvegir ganga. Og vitaskuld er þetta »praktiskasta« tilhögunin.