21.07.1917
Efri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

83. mál, útvegun á nauðsynjavörum

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg vil að eins mæla nokkur orð í sambandi við það, er jeg drap á í gær.

Hjer í þinginu hafa verið skipaðar bjargráðanefndir, og eru þær nú teknar til starfa. Hafa þær sent stjórnarráðinu áskoranir, og tillaga frá þeim er til umræðu í Nd. í dag.

Tillögurnar lúta að verslun landssjóðs. Heppilegast væri, að þeir einstaklingar, í hvorri deildinni um sig, er kynnu að hugsa til að bera fram tillögur, er lúta að þessu, beri sig saman við bjargráðanefndirnar og kynni sjer í stjórnarráðinu, hvað gert hefir verið í þessu efni. Við það yrði samræmið sem best milli tillagnanna. Jeg segi þetta ekki til að hindra framgang þessarar tillögu, heldur er þetta að eins almenns efnis.

Jeg hygg, að gott væri fyrir landsstjórnina að fá skýringu á því, hvort ætlast sje til þess með þessum till., sem nú er um að ræða, að landsstjórnin ein birgi landið að nauðsynjavörum til eins árs, án tillits til þess, sem aðrir kunna að draga að sjer, eða hvort birgðir kaupmanna skuli taldar með. Það er ekki vel ljóst, en jeg býst við, að umræðurnar skýri það.

Það er bráðnauðsynlegt að hafa mikinn forða fyrirliggjandi, en þó verða menn að hafa í huga væntanlegar afleiðingar því að verðfall verður að líkindum töluvert mikið er ófriðnum linnir og samgöngur greiðast. En þó munu allir kjósa það fremur en vöruskort.

Jeg mintist á það í gær, að stjórninni hefði þótt það æskilegt, að landið gæti dregið að sjer 8 mánaða forða að minsta kosti. En nú sje jeg, að sumir hafa misskilið mig á þá leið, að jeg hafi sagt, að landið ætti 8 mánaða forða af matvælum. Misskilningur þessi hefir meðal annars komið fram í blaði einu í morgun, og finn jeg því ástæðu til þess að leiðrjetta hann nú. Tillaga þessi fer fram á þriðjungi meiri birgðir, og hefi jeg ekkert að athuga við það, ef það er eindreginn vilji hins háa Alþingis í heild sinni.

Það var sjerstaklega til þess að fá skýringu á því, hvernig skilja beri tillöguna, að jeg tók til máls, og vona jeg, að háttv. frsm. (K. E.) skýri þetta atriði nánar.