01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

83. mál, útvegun á nauðsynjavörum

Frsm. (Einar Arnórsson):

Þessi till. er hingað komin frá háttv. Ed. og var vísað til bjargráðanefndar hjer í deildinni. Nefndin hefir haft till. til athugunar og leyfir sjer að leggja til þessara breytinga á henni: Í stað »skora á stjórnina að birgja landið upp . . .« komi: »skora á landsstjórnina að gera sitt ítrasta til að birgja landið ... .«. Enn fremur leggur hún til þess, að skeytt sje aftan við till.: »svo og að afla landinu eftir föngum annara nauðsynja, svo sem veiðarfæra, verkfæra, læknislyfja o. s. frv.«

Þessar breytingar er að sjálfsögðu ekki að skoða sem efnisbreytingar, en úr því að till. kom fram í þessa átt, þá þótti nefndinni rjett að taka fleiri dæmi nauðsynja en hv. Ed. hefir tekið með, þótt engan veginn sje hjer um tæmandi talning að ræða; stjórnin verður sjálf að fara eftir því, sem henni þykir haganlegast. Annars sýnist bæði mjer og öðrum till. lítt þörf; stjórnin hefir vitanlega útvegað þessar vörur og heldur að sjálfsögðu áfram að útvega þær, en fyrst að háttv. Ed. hefir talið rjett að koma með þessa till., þá hefir bjargráðanefnd Nd. ekki þótt rjett að leggja stein í götu hennar. Þessi till. er þá nokkurskonar siðferðileg hvöt fyrir stjórnina, en þrátt fyrir hana verð ur stjórnin að haga ráðstöfunum sínum eftir atvikum og eftir því, sem hún telur best henta. Ekki svo að skilja, að jeg vilji draga úr stjórninni með að birgja upp landið, eftir því, sem hún sjer sjer fært, en enginn getur skuldbundið hana framar en henni er kleift.

Jeg hefi þá ekki ástæðu til þess að ræða nánara um málið; vænti jeg þess, að till. verði samþ. eins og bjargráðanefnd hefir gengið frá henni.