23.08.1917
Efri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Háttv. frsm. (G. Ó.) hefir gert grein fyrir ástæðum háttv. landbúnaðarnefndar fyrir þessari tillögu, og get jeg verið honum samdóma um þær, en jeg hygg, að tillagan fari ef til vill oflangt í einu atriði, þar sem hún segir, að landsstjórnin »geri ráðstafanir til«, því að jeg fæ ekki sjeð, hvernig landsstjórnin á í þessu efni að gera ráðstafanir, sem sveitarstjórnunum er skylt að fara eftir. Jeg hygg, að þetta mál sje algerlega á valdsviði hlutaðeigandi sýslunefnda, og ef sveitarstjórnirnar ættu að vera skyldar að hlýða þessu, þá þyrfti lög um það. En nú er svo liðið á þingtíma, að varla er tími til þess, að nýtt frumvarp næði fram að ganga, og auk þess væru slík lög mikil breyting á grundvelli þeim, sem sveitarstjórnarlögin eru bygð á.

Eins og nú hagar fara fjallgöngur sumstaðar fram eftir vikudegi, en annarsstaðar eftir mánaðardegi, og sumstaðar verða sýslufjelög að verða samtaka um fjallgöngurnar.

Jeg vil beina því til nefndarinnar, hvort hún vill ekki taka tillöguna út af dagskrá og athuga orðalag hennar nánar, t. d. að í stað »gera ráðstafanir til« kæmi: leitast við að fá framgengt, en víst er um það, að landsstjórnin mun strax og tillagan verður samþykt síma hana til allra sýslumanna landsins, með ósk um, að þeir stuðli að því, að henni verði framgengt. Jeg býst við því, að það mæti eins miklum vinsældum, að farið sje að almenningi með lipurð og lægni, og það verði alt eins heppilegt til framgangs málinu.