28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hygg, að bent hafi verið á það við umræðu þessarar tillögu í háttv. Ed., að hjer er að ræða um breytingu og takmörkun á lagafyrirmæli. Það er því ekki hægt að skipa sýslunefndum að breyta gildandi reglum um fjallgöngur og rjettir. Hið eina, sem hægt er að gera, er það að síma tillöguna til formanna sýslunefnda og mælast til þess, að tillit verði tekið til hennar og ráðstafanir gerðar, eftir því sem þörf er á. Ef sýslunefndirnar neita að taka tillöguna til greina, þá verður ekki lengra komist. Jeg tek þetta fram nú, til þess að flutningsmenn tillögunnar verði ekki fyrir neinum vonbrigðum, þótt minna kynni að verða úr framkvæmdum en til er ætlast. Að öðru leyti er sjálfsagt að framfylgja vilja þingsins í þessu efni sem öðrum, eftir því sem hægt er að lögum. Mjer finst ástæða til að taka þetta fram, vegna þess, að jeg hefi heyrt, að að minsta kosti ein sýslunefnd telji þessa ráðstöfun varhugaverða. Jeg hygg þó, að það mundi verða ofan á, ef tillagan verður samþykt, að flestar sýslunefndir mundu fara eftir tilmælum stjórnarinnar í þessu efni.