28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Sigurður Sigurðsson:

Jeg vil leyfa mjer að mæla sem best með því, að rjettir sjeu færðar aftur um eina viku. (Fjármálaráðherra (S. E.): Það er ómögulegt að framkvæma það). Jeg hafði litið svo á, að þar sem svona sjerstaklega stendur á, mundi stjórnin upp á sitt eindæmi geta fyrirskipað þetta, ef hún hefði mikinn meiri hluta þings að baki sjer. Það fer auðvitað mikill tími í það að kalla saman allar sýslunefndir. Ef stjórnin sjer sjer samt sem áður ekki fært að gera þessa ákvörðun ein, þá tel jeg víst, að sýslumenn geti víða leitað álits sýslunefndarmanna, án þess að kalla þá saman á fund. Þar, sem símasambönd eru, ætti þetta að vera auðvelt. Ef tillagan verður samþykt, þá má ekki draga á langinn að tilkynna sýslumönnum það. Það verður að gera strax, símleiðis. Jeg er ekki í neinum vafa um það, að þetta mundi verða mjög vinsæl ráðstöfun. Víða eru uppi óskir um það, að hægt væri að fresta leitunum að þessu sinni. Stafar það af því, hve heyskapur byrjaði seint um land alt, og hefir auk þess orðið fyrir töfum, vegna ótíðar, á Suður- og Vesturlandi. Fyrir því er full þörf á að teygja heyskapinn svo langt fram á haustið, sem unt er. Jafnvel úr Strandasýslu, þar sem þó er einna mestum erfiðleikum bundið að framkvæma þessa ráðstöfun, hafa komið fram mjög eindregnar óskir um að fresta leitunum. Jeg vona, að háttvirt deild sjái sjer fært að samþykkja tillöguna. Hún hefir einnig mikið fylgi í háttv. Ed. Það má líka minna á það, að óskirnar um það að fresta leitunum eru einmitt komnar úr norðursveitunum, þar sem hættan er þó meiri, ef illa tekst til. Nú er líka svo til háttað á sumum útkjálkum landsins, þar sem snjókoma eða ill veður gætu gert það hættulegt að fresta göngunum, að þar þarf þess ekki með, því að þær sveitir hafa ekki fjársamgang við önnur hjeruð. En víðast hvar stendur þó svo á, að samband þarf að vera með leitir og rjettir um landið. Jeg vildi helst, að stjórnin sæi sjer fært að fyrirskipa þetta, án þess að fara að kalla saman sýslufundi. Jeg er líka hræddur um, að ekki yrði sem best samræmi í ályktunum þeirra, og þá ber að sama brunni, að stjórnin verður að skera úr. Ef stjórnin getur, þá ætti hún að gera þessar ráðstafanir, án álits annara en þingsins, og jeg held, að það sje ekki nema hjartveiki hjá henni að þora ekki að ráðast í það, með þingviljann að baki sjer.