28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Magnús Pjetursson:

Jeg hefi í raun og veru ekki miklu að bæta við orð háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). En af því að ekki hafa komið beinar óskir um að fresta fjallskilum á komandi hausti annarsstaðar að en úr mínu kjördæmi, þá finn jeg mjer skylt að segja nokkur orð. Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) talaði um það, að orðið væri ofáliðið sumars til að koma þessu í kring. Jeg sje ekki annað en að nokkur tími sje til stefnu enn þá. Nú er 28. ágúst. Ef tillagan verður afgreidd frá þinginu í dag og símuð strax til allra sýslumanna, þá ætti að vera hægt að koma í kring þeim ráðstöfunum, sem þörf er á. Jeg vildi líka benda á eina ástæðu, sem mælir með þessari frestun og vegur mikið að mínu áliti. Það gæti skeð, að ekki væri komið nægilegt salt til allra kauptúna á venjulegum rjettatíma. Jeg veit ekki, hvort þingmenn eru allir öruggir um það, að sláturtíð geti byrjað á rjettum tíma, af þessari ástæðu. Það getur vel verið, að öðrum sje kunnugra um það en mjer, að þetta sje að fullu trygt, en varlegra er þó að gera ráð fyrir, að svo sje ekki. Sama háttv. þm. fanst ekki rjett að vera að gera þessa undantekningu í þetta sinn. Jú, einmitt í þetta sinn, en ekki endrarnær. Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að þetta sje bráðabirgðaráðstöfun, sem gerð er sjerstaklega vegna þess, hvernig nú er ástatt.

Eins og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók fram byrjaði heyskapur mjög seint, og tafðist að mun vegna ótíðar, að minsta kosti í sumum hjeruðum. Jeg hafði ekki búist við því, að kalla þyrfti saman sýslufundi til að ráða fram úr þessu. Jeg hjelt, að sýslumaður gæti lagt tillöguna fyrir hvert upprekstrarfjelag fyrir sig og komið þannig á samkomulagi, eða þá kallað þá sýslunefndarmenn í síma, sem hægt væri að ná í, til þess að heyra álit þeirra um málið. Meira að segja mundu allir taka fult tillit til tillögunnar, þótt hún kæmi ekki sem beint fyrirmæli frá stjórninni. Jeg er viss um, að ekkert eitt upprekstrarfjelag, eða nokkur sýslunefnd, færi að skerast úr leik. Hv. 2. þm. Rang. (E. J.) sagði, að þetta gæti orðið hættulegt, ef veður yrðu slæm. Það má auðvitað segja, að slíkt geti komið fyrir. En ill veður geta líka komið, þótt það sje vikunni fyr. Það er því hending ein, sem ræður í því efni. Það mælir enn fremur með tillögunni, að þótt göngum verði nú frestað um eina viku, þá verða þær samt ekki seinna en þær verða næsta haust. Jeg vona, að háttv. deild taki tillit til þeirra óska, sem fram eru komnar. Fyrir norðan er það mjög eindreginn vilji, að þetta komist í framkvæmd. Ýmsir menn áttu tal við mig um það. En jeg mæltist til, að þeir bæru sig saman um þetta mál, og árangurinn er áskorun til þingsins. Þess vegna er þetta skeyti komið, sem gefið hefir tilefni til þess að jeg stóð upp.