28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Björn Stefánsson:

Ef jeg ætti að haga mjer í þessu máli eftir því, sem kjósendum mínum mundi geðjast best, þá ætti jeg að mæla sterklega með þessari tillögu. Þar eru víðast hvar litlar afrjettir, sem hægt er að hreinsa á einum degi. Samt sem áður finst mjer tillagan svo glæfralega orðuð, að óhæfilegt sje að samþykkja hana, eins og hún liggur fyrir. Tíðin er að vísu góð nú, en það er ekki víst, að svo verði þegar kemur að gangnadegi, svo að alls ekki er víst, að frestunin kæmi bændum að neinu gagni. Það getur heldur enginn sagt nema fjárskaðaveður geti komið á þessari viku, svo að fje týnist á afrjettum. Það gæti því dregið þungan dilk á eftir sjer, ef þingið yrði þess valdandi, að göngum verði frestað. Eða haldið þið ekki, að hlutaðeigendur mundu vilja fá skaðabætur greiddar af þinginu, ef þeir mistu meira eða minna af fje sínu fyrir tilvikið ? Jeg hygg, að erfitt mundi vera að neita þeim um það. Jeg vildi ekki ganga lengra en það að heimila þeim, sem vildu, að fresta leitunum. Tillagan ætti því að vera orðuð eitthvað í þá átt. En eftir yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra um það, hvernig með tillöguna verði farið, þrátt fyrir orðalagið, þá sje jeg ekki neitt hættulegt við að samþykkja hana. Í raun og veru verður þetta engin fyrirskipun, heldur að eins heimild til sveitarfjelaganna, enda álít jeg, að þingið megi ekki ganga lengra, að eins gefa heimild, en enga fyrirskipun; en óviðkunnanlegt er, að orðalag till. sje ekki í samræmi við það, hvernig á að framfylgja henni.