28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Einar Jónsson:

Það var ekki ætlun mín að fara að berjast á móti tillögunni, heldur vildi jeg að eins benda á, hvað af henni gæti leitt. Mjer er ómögulegt að fallast á þá staðhæfingu háttv. þm. Stranda. (M. P ), að tíminn sje ekki ofknappur. Það er víða langt á milli sveita, sem verða að bera sig saman um fjallgöngurnar, af því að afrjettalöndin liggja saman, en ekki alstaðar símasambönd, sem hægt er að nota. Jeg get nefnt sem dæmi það, sem mjer er kunnugast, af því að það er í minni sveit. Rangárvallahreppur á að smala á móti Skaftártunguhreppi og smalarnir að mætast inni við jökla á afrjettinni milli Torfajökuls og Eyjafjallajökuls. Milli þessara sveita er enginn sími, en ærið löng leið, svo að erfitt yrði að koma á samtökum um leitina.

Víða getur hagað líkt til; t. d. liggja saman afrjettir Húnvetninga og Skagfirðinga og Holtahrepps. En þó að nú salt kunni að vanta í haust í sláturfjenað, svo að það komi viku seinna, þá þarf ekki þess vegna að geyma fjeð uppi á afrjettum. Það er satt hjá háttv. þm. Stranda. (M. P.), að það er undir hepni komið, hvernig veður yrði þessa viku; vel gæti orðið góðviðri, sem hentugt væri til sláttar. Raunar er nú oftast alveg úti sláttur um þetta leyti; haustverkin kalla þá að, svo að menn geta ekki stundað slátt, þótt vildu; t. d. í Rangárvallasýslu hættir sláttur venjulega viku fyrir rjettir.

Annars er mjer ekkert kappsmál um þetta.