15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

191. mál, milliþinganefnd til að íhuga fossamál landsins

Gísli Sveinsson:

Eins og hæstv. þingi er kunnugt, þá var annað fossamál til meðferðar í háttv. Nd. og kom það ekki fyrir sjerstaka nefnd, heldur var því vísað til fjárhagsnefndar. Þessi nefnd gaf álit sitt um það mál, áður en þessi till. kom fram. Aðaltill. fjárhagsnefndar Nd. var, að því frv., sem fyrir henni lá, og málinu þar með, yrði vísað til stjórnarinnar og að stjórnin athugaði það og rannsakaði. En nefndin gat ekki undan felt að geta þess jafnframt, að ef skipuð yrði nefnd milli þinga í málið, þá yrði þessum málum, ekki að eins frv. því, er fyrir Ed. lá, heldur líka heimildarlagafrv., sem við höfðum til meðferðar í Nd., vísað til þeirrar nefndar.

Jeg skal ekki blanda mjer í þann ágreining, sem virðist vera milli háttv. þingmanna og nefndarinnar úr Ed., hvort heppilegt hefði verið að hraða málinu mjög á þessu þingi, sem sje með því að samþykkja einhvern veginn frv. það, sem kom til hv. Ed., nú, þótt önnur atriði málsins lægju undir athugun seinni tíma. Hitt er víst, að fjárhagsnefnd Nd. komst fljótt að þeirri niðurstöðu, þótt að eins væri um að ræða einföld heimildarlög handa stjórninni til að taka lán, að engin tök væru á að ráða málinu heppilega til lykta á þessu þingi, jafnvel þó að augljóst sje, að stjórnin þyrfti ekki einu sinni að nota heimildina fyrir næsta þing.

Nefndin hjer í Nd. tók það sjerstaklega fram, að hvort sem milliþinganefnd yrði skipuð eða stjórninni yrði falið að fara með frv., þá ætti að taka það sem frumatriði til rannsóknar, hvort kleift yrði landinu eða þjóðfjelaginu að taka að sjer vatnsaflið hjer á landi og starfrækja það, því að frv. hljóðaði um það efni. Fjárhagsnefnd þessarar deildar tók þar af leiðandi ekki neina afstöðu til þess atriðis, hvort nefndarmenn þeir, sem væntanlega verða skipaðir, ættu að vera að nokkru úr þinginu, eða að öllu leyti óbundið að skipa þá, eins og landsstjórninni þætti best henta. Get jeg sagt fyrir sjálfan mig, að mjer sýndist að þessi stjórn, er nú situr að völdum, þótt jeg telji mig ekki hennar stuðningsmann, ætti að geta verið einfær um það að skipa nefnd, sem við mætti una, í þetta mál, og hinu verður ekki neitað, að það er í ýmsum málum að sjerstakir einstaklingar eða sjerfræðingar eru nauðsynlegir. Verður þá svo að vera, að stjórnin hafi óbundnar hendur til að skipa þá menn, sem hún telur best fallna til starfsins, ef þingið treystir henni.

Nú geri jeg ráð fyrir því, að meiri hluti þessa þings treysti stjórninni, og jeg býst alveg við því, að þeir hv. þm., sem skora á stjórnina, treysti henni. Þessa get jeg nú að eins. En hitt kemur mjer á óvart, að það væri þegar bundið, að 3 af nefndarmönnunum yrðu að vera þingmenn, og þessi till. er þá rangt orðuð, því að enginn, sem les hana, getur fengið annað út úr henni en það, að stjórnin skipi þessa menn; hverjir það verða verður hún sjálf að ráða. Það kom mjer því algerlega á óvart, sem háttv. frsm. (M. T.) lýsti yfir að þessu leyti. Er jeg ekkert hrifinn af þessu ráðabruggi; miklu fremur andstæður því að svo verði, sem Ed. nefndin þannig virðist hafa komið sjer niður á; ekki af því, að jeg geti ekki treyst mönnum hjer á þingi eins og öðrum, heldur af hinu, að ef menn treysta stjórninni, þá vil jeg, að hún hafi óbundnar hendur, meðal annars til þess, að þingið geti staðið óbundið gagnvart þessari milliþinganefnd og þeirri niðurstöðu, sem hún kann að komast að, og geti skelt ábyrgðinni á stjórnina, ef það getur ekki samþ. aðferð hennar og gerðir, svo að eðlilegt mætti þykja.

Mjer virðist svo, ef þingið er nokkuð bundið við þessa nefnd, að þá verði niðurstaðan fyrirfram ákveðin, og tel jeg það ekki sem heppilegasta aðferð, ef á annað borð á að fara fram frjáls rannsókn á einhverju máli.